Tveir af umdeildustu útrásarvíkingum Íslands, Lýður og Ágúst Guðmundssynir, geta aftur náð yfirráðum yfir hluta viðskiptaveldis síns á sama tíma og reiði almennings á Íslandi eykst vegna þess kostnaðar sem fellur á hinn almenna borgara vegna kreppunnar. Þetta kemur fram í grein í Guardian í dag. Fjallar blaðið ýtarlega um veldi bræðranna og segir í fyrirsögn blaðsins:Íslenskir auðjöfrar gætu aftur náð yfirráðum yfir veldi sem byggt var upp á skuldum.
Í greininni er fjallað um að yfir 90% kröfuhafa hafi samþykkt nauðasamninga Bakkavarar í síðustu viku. Það þýði að í stað þess að félagið fari í þrot og bræðurnir Ágúst og Lýður missi sinn hlut í félaginu, eigi þeir enn möguleika á að eignast 25% hlut í félaginu á ný. Jafnframt muni þeir áfram vera við stjórnvölinn hjá Bakkavör.
Segir í Guardian að margir Íslendingar eru reiðir út í hina svo kölluðu „útrásarvíkinga“, þar á með bræðurna Ágúst og Lýð sem stýrðu félögum sem skráð voru á hlutabréfamarkaði. Félögin voru í endalausum skuldsettum yfirtökum, einkum og sér í lagi í Bretlandi. Náin tengsl voru með bræðrunum og íslensku bönkunum sem fjármögnuðu þá.
Með þessum endalausu skuldsettu yfirtökum er Bakkavör einn helsti framleiðandi tilbúinna rétta sem seldir eru í verslunum, til að mynda pítsum, eftirréttum, salati, súpum og ídýfum.
Bræðurnir, sem þekktir eru undir heitinu „Bakkabræður", horfðu á stærstan hluta pappírsauðæfa sinna hverfa þegar Kaupþing féll árið 2008. Í greininni er einnig fjallað um krosseignatengsl bræðranna og Kaupþings meðal annars í gegnum fjárfestingafélagið Exista en þeir voru helstu eigendur bankans og um leið félög þeim tengd áberandi í lánabók Kaupþings sem var birt á Wikileaks í fyrra.
En þeir Bakkabræður eru ekki einu íslensku kaupsýslumennirnir sem Guardian fjallar um í dag. Jafnframt er fjallað um Björgólf Guðmundssson og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Segir Guardian að Björgólfur hafi ásamt syni sínum, Björgólfi Thor, byggt veldi sitt á bjórsölu í Rússlandi. Þeir feðgar hafi keypt Landsbankann af ríkinu þegar bankinn var einkavæddur og í kjölfarið orðið ríkustu menn Íslands sem meðal annars rötuðu inn á lista Forbes yfir ríkustu menn heims. Nú sé Björgólfur Guðmundsson gjaldþrota.
Jón Ásgeir er sagður hafa breytt Bónus yfir í smásöluveldið Baug. Hann hafi hins vegar glatað öllu að mestu eftir að hafa fjárfest víða í breskri smásölu.