Segir fréttir RÚV rangar

Jón Þorsteinn Jónsson.
Jón Þorsteinn Jónsson. Rax / Ragnar Axelsson

Jón Þor­steinn Jóns­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður Byrs spari­sjóðs, seg­ir það ekki rétt sem fram hafi komið í frétt­um Rík­is­sjón­varps­ins að und­an­förnu að fé­lög hon­um tengd skuldi Byr um þrjá millj­arða króna og að af­skrifa þurfi um helm­ing þeirr­ar upp­hæðar.

„Frétta­stofa Rík­is­sjón­varps­ins hef­ur síðastliðna daga fjallað um lán­veit­ing­ar Byr spari­sjóðs til nokk­urra fyrr­um eig­enda sinna og því hef­ur verið haldið fram að fé­lög tengd mér skuldi Byr um þrjá millj­arða króna og að af­skrifa þurfi um helm­ing þeirr­ar upp­hæðar. Þetta er ekki rétt. Ég hef ít­rekað beðið frétta­stofu Sjón­varps um að leiðrétta þenn­an frétta­flutn­ing en án ár­ang­urs. Því vil ég óska eft­ir því að fá að koma eft­ir­far­andi at­huga­semd­um á fram­færi.

Í sam­skipt­um mín­um við frétta­mann Rík­is­sjón­varps­ins kom fram að frétt hans byggðist á upp­lýs­ing­um um lán til fyr­ir­tækj­anna Saxhóls ehf, BYGG ehf, BYGG In­vest ehf. og Sax­bygg ehf. Þaðan munu þess­ar háu fjár­hæðir vera komn­ar, sem ég kann­ast ekki við.

Skoðum málið:

  • Fjár­fest­ing­ar­fé­lag mitt Saxhóll ehf. skuldaði Byr á sín­um tíma tæp­an millj­arð króna. Þess var þó ekki getið í frétt Rík­is­sjón­varps­ins að það lán er að fullu upp­gert spari­sjóðnum með öll­um vöxt­um og gjöld­um. Eng­ar af­skrift­ir á mig þar.
  • BYGG ehf., sem skv. frétta­mann­in­um skuld­ar Byr um 300 millj­ón­ir króna er mér með öllu ótengt, en það lán mun einnig vera upp­gert. Það eru því eng­ar af­skrift­ir á mig þar held­ur.
  • Fyr­ir­tækið BYGG In­vest ehf., sem skv. frétta­mann­in­um skuld­ar Byr ríf­lega 1100 millj­ón­ir króna, er mér auk­in­held­ur al­ger­lega óviðkom­andi og skulda­upp­gjör þess sömu­leiðis.
  • Það er aft­ur á móti rétt að fyr­ir­tækið Sax­bygg ehf., þar sem ég var á meðal eig­enda, er með 418 millj­óna króna lán (á nú­gild­andi gengi) hjá Byr spari­sjóð. Fé­lagið, sem nú er í skiptameðferð, út­vegaði spari­sjóðnum á sín­um tíma trygg­ing­ar fyr­ir þess­ari fjár­hæð. Von­andi halda þær trygg­ing­ar og mun þá ekki þurfa að koma til af­skrifta vegna þessa láns.

Það sér hvert manns­barn að him­inn og haf er á milli þess að skulda 3 millj­arða ann­ars veg­ar eða 418 millj­ón­ir hins veg­ar. Það er mik­ill mun­ur á að vera vald­ur að 1,5 millj­arða út­lánatapi eða litl­um eða eng­um af­skrift­um nema trygg­ing­ar bregðist. Þó ým­is­legt sé um mann skrifað, bæði satt og logið, þá er ekki hægt að láta hjá líða að leiðrétta svona rang­færsl­ur.

Ég vil taka fram að ég skil sár­indi stofn­fjár­eig­enda í spari­sjóðnum Byr. Sjálf­ur varð ég fyr­ir miklu eignatapi vegna efna­hags­hruns­ins og var með nær all­ar eign­ir mín­ar í tveim­ur fé­lög­um, Saxhól og Sax­bygg, sem nú er verið að skipta upp á milli lána­drottna. Mik­ill hluti eig­in fjár þess­ara fyr­ir­tækja hafði byggst upp á síðustu öld – löngu fyr­ir eigna­bólu síðustu ára. En því miður fór ég, eins og svo marg­ir, of geyst í skuld­setn­ingu síðustu árin fyr­ir hrunið og því fór sem fór.
Í ljósi of­an­greinds er ljóst að fram­setn­ing frétt­ar Rík­is­sjón­varps­ins er, hvað mig varðar, í engu sam­ræmi við veru­leik­ann.

Þess má að lok­um geta að und­ir­ritaður hef­ur, hvorki fyrr né síðar, fengið per­sónu­lega lána­fyr­ir­greiðslu hjá Byr spari­sjóð," seg­ir í yf­ir­lýs­ingu sem Jón Þor­steinn Jóns­son rit­ar und­ir.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK