Mikið líf hefur verið á millibankamarkaði og hefur gengi krónunnar styrkst um 0,43% það sem af er degi. Stendur gengisvísitalan í 227,31 stigi. Evran er 172,90 krónur og hefur verð hennar í krónum ekki verið lægra frá því í júníbyrjun í fyrra, eða í níu mánuði.
Bandaríkjadalur er einnig á hraðri niðurleið og er 125,54 krónur, pundið er 190,37 krónur og danska krónan er 23,236 krónur, samkvæmt upplýsingum hjá gjaldeyrisborði Íslandsbanka.
Jákvæð áhrif á efnahagsreikning heimila og fyrirtækja
„Ekki liggur fyrir hvað býr að baki sölu markaðsaðila á evrum á millibankamarkaði nú. Þó má ímynda sér að markaðsaðilar hafi viljað eiga borð fyrir báru hvað gjaldeyri varðar í aðdraganda lokagjalddaga ríkisbréfaflokksins RIKB 10 0317, en útlendingar eiga bróðurpart þeirra bréfa og geta því keypt gjaldeyri fyrir vaxtatekjur af honum sem nemur u.þ.b. 4 mö.kr.
Kann þetta að skýra ládeyðuna á millibankamarkaði síðustu vikur. Hafi bankarnir hins vegar nægar varabirgðir gjaldeyris til að bregðast við slíku útflæði á næstunni er ekkert því til fyrirstöðu lengur að það umframinnflæði gjaldeyris sem skapast vegna afgangs af vöru- og þjónustuviðskiptum nú um stundir skili sér inn á millibankamarkað og styrki krónuna hægt og sígandi, líkt og raunin var á fyrstu vikum ársins.
Óþarfi ætti að vera að tíunda það hversu jákvæð áhrif styrking krónu hefur á efnahagsreikning fyrirtækja og heimila, sem og verðbólguhorfur. Styrkingin frá því krónan stóð hvað lægst í fyrrahaust nemur nú u.þ.b. 5% og er hún þegar farin að hafa einhver áhrif á verð þeirra innfluttu vara sem hafa hvað mestan veltuhraða. Verði frekari þróun í þessa áttina gæti því verð innfluttra vara tekið að þokast niður á við, en þær hafa hækkað látlaust undanfarin tvö ár, segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.