Fullyrt er í skýrslu um aðdraganda falls íslensku krónunnar, sem hagfræðingur hefur samið, að Seðlabankinn hafi rýmkað reglur um kaup á gjaldeyri, þegar eðlilegra hefði verið að þrengja reglurnar.
Fjallað var um skýrsluna í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi en skýrslan er eftir Bjarna Kristjánsson, hagfræðing, sem var umfangsmikill gjaldeyrismiðlari. Þar kom fram, að bankarnir hafi unnið gegn þeim vörnum sem þeir seldu viðskiptavinum sínum með stórfelldri stöðutöku gegn krónunni á sama tíma. Þetta hafi verið gert með fullu leyfi Seðlabankans og talið liður í eðlilegum vörnum þeirra.
Bjarni telur að bankarnir hafi gengið lengra í kaupum á gjaldeyri en sem nam vörnunum og það hefði Seðlabankinn átt og getað komið í veg fyrir. Kaupþing er sérstaklega nefnt í þessu sambandi. Stór hluti af hagnaði bankanna síðustu tólf mánuðina fyrir fall þeirra hafi verið hagnaður vegna stöðutöku gegn krónunni sem hafi verið fjandsamleg hagsmunum lands og þjóðar.
Í skýrslunni segir að bankarnir hafi kerfisbundið keypt gjaldeyri til að auka hagnað við árshlutauppgjör og þannig blekkt markaðinn. 60-80% af hruni krónunnar megi rekja beint til kaupa bankanna á gjaldeyri. Seðlabankinn hafi ekki haft eftirlit með þessum gjörningi bankanna.