Drógu saman seglin

Fljótlega eftir að æðstu stjórnendur Glitnis höfðu kynnt starfsmönnum framtíðaráætlanir um vöxt bankans á stefnumótunarfundi í Skotlandi síðla árs 2007, varð þeim ljóst að markaðsaðstæður myndu lítið annað en versna á komandi mánuðum. Því voru vaxtaráætlanir lagðar á hilluna um sinn.

Þetta kemur fram í greinargerð sem unnin var af fyrrverandi starfsmönnum Glitnis síðastliðið haust. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var greinargerðin send til Fjármálaeftirlitsins.

Í greinargerðinni segir meðal annars um stefnumótunarfundinn í Skotlandi: „En að loknum fundinum, sem byggðist að mestum hluta á vinnu sem unnin hafði verið á meðan markaðir voru í góðu lagi, fór mönnum smám saman að verða ljóst að veruleg umskipti væru að verða á mörkuðum og að hugsanlega kynni Glitnir að vera í þann mund að sigla inn í tímabil þar sem reikna mætti með verri aðgangi að lánsfé.

Því má segja að staðið hafi á endum að um leið og menn ræddu stórhuga hugmyndir um sókn bankans á stefnumótunarfundinum í Skotlandi hafi þeim jafnframt verið ljóst að grundvöllur þeirra væri algerlega brostinn og að ekki væri um annað að ræða en að leggja þær allar í lóg, sem varð raunin.“

Útlánakvótar eftir Northern Rock

Í greinargerðinni kemur fram að strax þegar breski bankinn Northern Rock varð fyrir áhlaupi og komst í þrot hafi menn hugað að því að koma á útlánakvótum gagnvart viðskiptavinum bankans. Fjármögnun íslensku bankanna var orðin mun erfiðari þá þegar haustið 2007, en síðasta opinbera skuldabréfaútgáfa Glitnis var þegar bankinn gaf út skuldabréf til fimm ára í Bandaríkjunum á 140 punktum yfir millibankavöxtum, sem voru mun verri kjör en íslensku bankarnir höfðu áður fengið á erlendum fjármagnsmörkuðum.

Aðeins fjórum mánuðum áður hafði Glitnir gefið út skuldabréf á 25 punktum yfir millibankavöxtum. Því er ljóst að traust erlendra fjárfesta á íslensku bönkunum hraðversnaði á afar stuttum tíma, enda voru óveðursskýin byrjuð að hrannast upp yfir fjármálamörkuðum.

Þorsteinn Már tekur við

Á aðalfundi bankans í febrúar 2008 tók Þorsteinn Már Baldvinsson við stjórnarformennsku í Glitni. Þorsteinn boðaði strax aðhaldsaðgerðir með lækkun kostnaðar í rekstri bankans.

Þorsteinn sagði í viðtali við Morgunblaðið 23. febrúar 2008 að Glitnir starfaði þá í ellefu löndum, en stefnan væri að fækka þeim löndum sem bankinn héldi úti starfsemi í. Það er því ljóst að þær vaxtaráætlanir sem kynntar voru síðla hausts 2007 komust lítt til framkvæmda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka