Smásölurisinn Phillips-Van Heusen sem á meðal annars Calvin Klein merkið gekk í dag frá samningum um kaup á Tommy Hilfiger merkinu. Með kaupunum verður einn stærsti fataframleiðandi heims til með tekjur upp á um 4,6 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði 580 milljarða króna.
Tommy Hilfiger var í eigu eignarhaldsfélagsins Apax partners sem keypti það fyrir um 1,6 milljarð dala eða 202 milljarða króna árið 2006.
Sölusamningurinn hljóðar upp á nær 2 milljarða evra eða um 300 milljarða króna í reiðufé auk þess að fá hlut upp á 276 milljónir evra, tæpa 48 milljarða í smásölurisanum.
Fyrir utan Calvin Klein eiga Philips-Van Heusen meðal annars merki eins og Van Heusen, Arrow, IZOD og Bass.
Kaupendurnir gera ráð fyrir ná fram um 40 milljóna dala sparnaði í samlegðaráhrifum af kaupunum.