Fréttaskýring: Vill refsa ESB-ríkjum eins og Grikklandi

Mótmælt hefur verið daglega í Grikklandi að undanförnu vegna niðurskurðar …
Mótmælt hefur verið daglega í Grikklandi að undanförnu vegna niðurskurðar á ríkisútgjöldum. Reuters

Embættismenn frá hinum sextán svokölluðu evruríkjum unnu að því um helgina að ná einhvers konar samkomulagi um fjárhagsaðstoð við Grikkland. Í dag munu fjármálaráðherrar landanna hittast í Brussel til að ræða málefni Grikklands, en landið mun þurfa að standa skil á greiðslum að andvirði allt að 8.700 milljörðum króna í ár. Þar af eru 3.500 milljarðar króna á gjalddaga í apríl og maí.

Ekki er vitað hvaða leiðir verða farnar til að koma Grikkjum til aðstoðar, en hugsanlega munu evruríkin veita Grikklandi lán eða tryggingar fyrir lánum til að auðvelda þeim að endurfjármagna áðurnefnd lán.

Ein stór hindrun í veginum fyrir fjárhagsaðstoðinni er sú að þýsk stjórnvöld hafa ekki samþykkt að koma Grikklandi til hjálpar. Það hafa hollensk stjórnvöld ekki heldur gert. Breska blaðið Financial Times segir að líkleg niðurstaða fundarins í dag verði sú að Grikkjum verði hrósað fyrir þann árangur sem þegar hefur náðst í ríkisfjármálum og að ákveðið verði almennt að koma þeim til bjargar, en nákvæmlega hvernig það verður gert muni bíða seinni tíma.

Þjóðverjar vilja meiri hörku

Þá er gert ráð fyrir því að á fundinum verði rætt hvernig herða megi stöðugleika- og vaxtarsáttmálann, en hann segir til um hve miklar skuldir einstakra ríkja mega vera og hve mikill halli megi vera á ríkisfjármálum þeirra. Sum ríki hafa komið fram með hugmyndir um hvernig refsa megi þeim sem fara út fyrir ramma sáttmálans.

Enginn hefur þó gengið lengra í slíkum yfirlýsingum en fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble, sem sagði á dögunum að ekkert ríki ætti að fá fé frá Evrópusambandinu ef það héldi sig ekki innan ramma sáttmálans. Hafa aðrir bent á að ef öll ríki Evrópusambandsins hegðuðu sér eins og Grikkir hafa gert myndi evrusvæðið aldrei jafna sig á kreppunni.

Schäuble gekk hins vegar enn lengra í grein sem hann skrifaði í Financial Times. Þar segir hann að ESB-ríki, sem ekki haldi sig innan ramma sáttmálans, eigi ekki að fá að taka þátt í ákvarðanatöku þegar kemur að fjármálum annarra Evrópuríkja. Með öðrum orðum eigi þau Evrópuríki ein, sem hafa sín fjármál á hreinu, að fá að taka ákvarðanir um fjármál annarra ríkja.

Vegna þess að Þýskaland er eitt þeirra ESB-ríkja sem standa hvað styrkustum fótum þykjast sumir sjá í orðum Schäuble merki þess að Þjóðverjar vilji með þessu móti tryggja sér meiri ítök í ákvarðanatöku innan ESB.

Allt gert til að verja evruna

Frakkar hafa hins vegar farið aðra leið í umfjölluninni um gríska vandamálið. Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, sagði í viðtali við Wall Street Journal, að Grikkir hefðu náð meiri árangri í ríkisfjármálum en ætlast hefði verið til af þeim og því bæri að fagna.

Hins vegar sagði Lagarde að ekki kæmi til fjárhagslegrar aðstoðar frá Evrópusambandinu nema til kæmi greiðslufall af hálfu Grikklands. Þar til það gerðist væri ekki þörf á fjárhagslegri aðstoð. Kæmi til greiðslufalls væri Evrópusambandið fært um að koma Grikkjum til aðstoðar með stuttum fyrirvara.

Tók hún undir með mörgum öðrum evrópskum leiðtogum þegar hún sagði að ESB myndi grípa til hvaða aðgerða sem væru nauðsynlegar til að tryggja stöðugleika evrunnar. Þá hvatti hún til þess að Eurostat – hagstofa Evrópusambandsins – fengi meiri völd til að sækja nauðsynlegar upplýsingar til aðildarríkjanna.

Í hnotskurn
» Málefni Grikklands hafa verið mikið í umræðunni, einkum eftir að í ljós kom að grísk stjórnvöld höfðu logið til um halla ríkissjóðs.
» Efast margir um að Grikkir geti hjálparlaust staðið við fjárhagslegar skuldbindingar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK