IFS Greining telur að peningamálastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni lækka stýrivexti um 0,5 prósentur á morgun og stýrivextir verði 9%. Þetta kemur fram í vefriti IFS Greiningar.
Frá síðasta stýrivaxtafundi í janúar hefur gengi krónu styrkst lítilsháttar eða um 3%. Framangreind styrking hefur átt sér stað án nokkurra inngripa Seðlabankans, segir í vefriti IFS.
„Vísbendingar eru um að verðbólgan sé að hjaðna en 3 mánaða verðbólga er nú 5,4%, þ.e.a.s. breyting vísitölu neysluverðs síðustu 3 mánuði reiknuð á ársgrundvelli. Hafa verður í huga að stór hluti verðbólgunnar síðustu 3 mánuði er vegna skattahækkana. Verðbólga til 12 mánaða er 7,3% en við ákvarðanatöku á ekki að líta til hver verðbólgan var. Horfa ber fram á við og byggja á vísbendingum um verðbólgu á næstu mánuðum. Flest bendir til að verðbólgan sé á undanhaldi," segir í vefriti IFS Greiningar.