Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækka í 7,5%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum í 8,75%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 9%, en það eru þeir vextir sem yfirleitt eru nefndir stýrivextir, og daglánavextir í 10,5%.
Spár greiningardeilda hljóðuðu upp á 0,25-0,5 prósenta lækkun stýrivaxta nú. Greining Íslandsbanka spáði því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands myndi lækka stýrivexti um 0,25-0,5 prósent. Greiningardeild MP banka spáði 0,25 prósentustig lækkun og IFS Greining spáði lækkun upp á 0,50 prósentur.
Rökin fyrir vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar verða kynnt fyrir fréttamönnum og sérfræðingum á markaði klukkan 11 í dag. Hægt verður að fylgjast með útsendingu frá fundinum á vef Seðlabanka Íslands.
Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er þann 5. maí nk. Þá gefur bankinn einnig út Peningamál.
Vextir Seðlabankans lækkuðu þann 27. janúar um 0,5 prósentur.