Hafnarfjarðarkaupstaður skuldar lánasjóði sveitarfélaga tæplega 7,5 milljarða króna, samkvæmt ársskýrslu sjóðsins, sem birt var í gærkvöldi. Kópavogsbær skuldar sjóðnum rúmlega 6,4 milljarða og Akrureyrarbær skuldar tæpa 4,2 milljarða króna.
Fram kemur í ársskýrslunni, að lánasjóðurinn sendi í janúar öllum lántakendum hjá sjóðnum samhljóða bréf þar sem óskað var almennrar heimildar fyrir því að birta upplýsingar um stöðu lána þeirra hjá sjóðnum. Alls heimiluðu 59 sveitarfélög sjóðnum að birta þessar upplýsingar en skuld þeirra við sjóðinn nema samtals 58,5 milljörðum króna. Þau sveitarfélög sem ekki hafa skilað inn skriflegu samþykki skulda sjóðnum samtals 155 milljónir króna. Sveitarfélög á landinu eru 77 talsins en 63 þeirra eru skilgreind sem lántakendur hjá sjóðnum.
Alls skulda 16 sveitarfélög Lánasjóði sveitarfélaga milljarð króna eða meira. Fram kemur í ársskýrslunni, að samkvæmt sveitarstjórnalögum geti íslensk sveitarfélög ekki orðið gjaldþrota. Í árslok var einn viðskiptamaður flokkaður sem viðskiptamaður með stóra áhættuskuldbindingu hjá lánasjóðnum. Viðskiptamenn eru skilgreindir með stórar áhættuskuldbindingar ef heildarskuldbindingar fara yfir 10% af
eiginfjárgrunni.
Tíu stærstu lántakendurnir eru með um 55% af heildarútlánum sjóðsins. Hámarksáhætta á einn aðila má ekki fara upp fyrir 25% af eiginfjárgrunni sjóðsins.
Í ársskýrslunni kemur fram, að ekjuafgangur á síðasta ári var 1656 milljónir króna á móti 1225 milljónum árið áður. Segir sjóðurinn að háir vextir á innlendum markaði og mikil verðbólga hafi skilað mjög góðri afkomu en eignir sem samsvara eigin fé sjóðsins séu að mestu bundnar í verðtryggðum útlánum. Ávöxtun á lausu fé hafi einnig verið framúrskarandi, en það var svo til allt varðveitt í Seðlabankanum.
Þá kemur einnig fram, að árslaun Óttars Guðjónssonar, framkvæmdastjóra, námu 15,999 milljónum króna. Laun Magnúsar B. Jónssonar, stjórnarformanns, námu 915 þúsund krónum og árslaun stjórnarmanna voru á bilinu 50 þúsund til 610 þúsunda.