Monica Caneman, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Skandinaviska Enskilda Banken, var í dag kosin nýr stjórnarformaður Arion banka en ný stjórn bankans var kosin á hluthafafundi. Aðrir stjórnarmenn eru Guðrún Johnsen, varaformaður, Kristján Jóhannsson, Steen Hemmingsen og Theodór S. Sigurbergsson.
Varamenn eru Agnar Kofoed-Hansen, Jóhannes R. Jóhannesson, Ólafur Helgi Ólafsson, María Grétarsdóttir og Guðrún Björnsdóttir.
Í tilkynningu frá Arion banka segir að við val á stjórnarmönnum hafi verið áhersla lögð á að þeir hefðu fjölþætta menntun og reynslu á sviði banka- og fyrirtækjarekstrar. „Sérstaklega var litið til þess hversu krefjandi aðstæður eru í íslensku efnahagslífi og þeirrar uppbyggingar sem framundan er. Jafnframt þótti mikilvægt að innan stjórnar væru erlendir aðilar með umfangsmikla fagþekkingu. Tveir stjórnarmanna eru erlendir með fjölþætta reynslu af alþjóðlegri fjármálastarfsemi og hvor með sérfræðiþekkingu á sínu sviði.“
Stjórnarformaðurinn, Monica Caneman, er fyrrverandi aðstoðarforstjóri Skandinaviska Enskilda Banken (SEB) þar sem hún starfaði um 25 ára skeið. Frá árinu 2001 hefur hún helgað sig setu í stjórnum fyrirtækja.
Hin nýja stjórn er sú fyrsta sem skipuð er eftir að skilanefnd Kaupþings fyrir hönd kröfuhafa og íslenska ríkið gengu frá samkomulagi um eignarhald Arion banka. Samkvæmt því fara Kaupskil ehf., eignarhaldsfélag Kaupþings, með 87% eignarhlut Kaupþings í Arion banka og skipa fjóra stjórnarmenn, en Bankasýsla ríkisins fer með 13% hlut ríkisins og skipar fimmta stjórnarmanninn.
Skipan stjórnar er samkvæmt skilyrðum Fjármálaeftirlitsins um eignarhald Kaupskila á Arion banka, en þau kveða m.a. á um að meirihluti stjórnarmanna, þar á meðal stjórnarformaður, skuli vera óháður Kaupþingi og einstökum kröfuhöfum. Auk þess er heimilt að einn stjórnarmaður komi úr röðum skilanefndar. Bankasýsla ríkisins skipar einn stjórnarmann samkvæmt tillögum valnefndar. Í kjölfar skipunar stjórnarinnar mun FME meta stjórnarmenn Arion banka með tilliti til þess hvort þeir uppfylli kröfur, m.a. um þekkingu og reynslu af fjármálastarfsemi.