Skuldatryggingarálag á ríkissjóð Íslands hefur lækkað verulega á síðustu vikum og hefur það ekki verið jafn lágt síðan í byrjun desember. Að sögn Greiningar Íslandsbanka var álagið til 5 ára í morgun 401 punktar (4,01%), en í byrjun febrúar var álagið 675 punktar.
Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka, að þessi lækkun sé þó síður en svo einsdæmi enda hafi skuldatryggingarálag ríkja almennt farið lækkandi á síðustu vikum. Skuldatryggingarálag Grikklands var 292 punktar í morgun en það fór hæst í 428 punkta í febrúarbyrjun.
Þá hefur skuldatryggingarálag Dubai, sem komst í fréttirnar í upphafi árs sökum lélegrar skuldastöðu, lækkað verulega en um miðjan febrúar stóð álag furstadæmisins í 651 punktum en í morgun var álagið 436 punktar.
Íslandsbanki segir, að þrátt fyrir þessa miklu lækkun skuldatryggingarálagsins á íslenska ríkið síðustu vikurnar sé álagið enn afar hátt. Einungis sex önnur ríki séu með hærra áhættuálag en það íslenska: Argentína, Venesúela, Pakistan, Úkraínu, Írak og Dubai.