Tap Orkuveitu Reykjavíkur nam 2,5 milljörðum króna á síðasta ári en árið 2008 nam tap félagsins 73 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði (EBITDA) var 13 milljarðar króna á síðasta ári en var 11,7 milljarðar króna árið 2008.
Hagstæð þróun álverðs skiptir miklu
Hagnaður af rekstri OR síðustu þrjá mánuði ársins nam um 8,8 milljörðum króna. Hagstæð þróun álverðs veldur þar miklu, samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu.
Segir þar að tapið skýrist að mestu af 7,6% veikingu krónunnar frá upphafi til loka árs 2009. Frá ársbyrjun 2010 hefur gengi krónunnar styrkst um 2,5% og bætir það eiginfjárstöðu OR. Þá hefur innbyrðis þróun evru og Bandaríkjadals frá áramótum verið fyrirtækinu hagfelld. Veiking evru hefur lækkað skuldir og styrking bandaríkjadals aukið tekjur og verðmæti langtíma orkusölusölusamninga, sem allir eru í þeirri mynt. Þá er álverð nú mun hærra en gert var ráð fyrir í áætlunum OR.
Bókfærðar eignir námu um áramót 282 milljörðum króna og skuldir 241 milljörðum króna. Fram kemur í skýringum með ársreikningi OR að verðmæti þeirra raforkusölusamninga til stórnotenda, sem Orkuveita Reykjavíkur hefur gert, nemi 181 milljarði króna.
Í rekstrarreikningi OR fyrir síðasta ár er færð tekjuskattseign sem nemur tæpum 1,2 milljörðum króna. Vegna óvissu um möguleika fyrirtækisins til að nýta inneignina, á móti framtíðarhagnaði, var hún lækkuð í varúðarskyni um 4,4 milljarða, samkvæmt tilkynningu.
Óvissa um þróun á framtíðargengi íslensku krónunnar veldur þar mestu. Tekjuskattseignin myndaðist við hrun krónunnar á árinu 2008. Ef ekki hefði komið til þessarar varúðarfærslu hefði niðurstaða ársins orðið jákvæð um 1,9 milljarða króna.
Ekki ráðist í byggingu Hverahlíðarvirkjunar nema samningar náist
„Nú standa yfir formlegar viðræður við tvo aðila um gerð langtímasamninga um orkukaup. Það er vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík, annars vegar, og áformaðrar kísil- og sólarkísilverksmiðju í Þorlákshöfn hinsvegar. Takist samningar mun OR ráðast í smíði Hverahlíðarvirkjunar. Afl hennar er áætlað 90 megavött, en ekki verður ráðist í byggingu hennar fyrr en fjármögnun verður að fullu lokið. Mati á umhverfisáhrifum vegna hennar er lokið og góð sátt ríkir um byggingu hennar.
OR hefur varið talsverðum fjármunum í undirbúning virkjunarinnar. Rannsóknarboranir undir Hverahlíð, sem er sunnan þjóðvegarins yfir Hellisheiði, hafa gefið góða raun og er þar m.a. einhver öflugasta borhola, sem boruð hefur verið hér á landi og jafnvel þótt víðar væri leitað," segir í tilkynningu OR.