Álfyrirtækið Rio Tinto hefur skrifað undir samning við Kína sem m.a. hefur í för með sér vinnslu úr járngrýtisnámum í Vestur-Afríku. Kínverska fyrirtækið Chinalco, sem nýtur stuðnings kínverska ríkisins, mun greiða 1,3 milljarða dollara fyrir 47% hlut í námunni.
Samskipti Rio Tinto og kínverskra stjórnvalda hafa verið viðkvæm að undanförnu eftir að fjórir starfsmenn álfyrirtækisins voru handteknir í Kína sakaðir um iðnaðarnjósnir. Kínverjar hafa hafnað kröfum um að réttað verði yfir mönnunum fyrir opnum tjöldum. Réttarhöldin eiga að hefjast á mánudag. Einn mannanna er Ástralíumaður, en hinir eru kínverskir.
Þegar mennirnir voru handteknir unnu þeir að samningu um verð á járngrýti, sem felur í sér hvað Kína og aðrir kaupendur járngrýtis þurfa að borga á þessu ár. Samningnum er enn ekki lokið.
Sendiráð Ástralíu hefur fengið tilkynningu frá Kínverjum um að ástæða þess að réttarhöldin verði lokuð sé sú að þar verði fjallað um verðsamninga sem séu viðskiptaleyndarmál.