Forsvarsmenn Recovery Partners segja, að fyrirtækið sé ekki sjóður sem leitist við að hagnast á kostnað fyrirtækja eða þjóða í vanda. Þá séu Recovery Partners hvorki við þessar aðstæður að leita eftir fjárfestingamöguleikum fyrir sig sjálfa né muni gera það í framtíðinni hvað snertir Ísland eða íslenska hagsmuni.
Þetta kemur fram í tilkynningu, sem Alex Jurshevski skrifar undir. Jurshevski kom fram í Silfti Egils fyrir rúmri viku og varaði þá við skuldasöfnun íslenska ríkisins og hvatti til þess að farið yrði gætilega í að þiggja frekari lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
„Lausn AGS felur að okkar mati í sér ákaflega mikla áhættu, er afar kostnaðarsöm og gefur nánast engan kost á nýju fjármagni, sem unnt væri að nýta til endurreisnar á efnahag Íslands. Þessi áhætta og kostnaður felur í sér verulega aukningu á skuldsetningu og útilokar fjárhagslegt samstarf Íslands við alla aðila aðra en AGS," segir meðal annars í tilkynningunni.