Sex voru handteknir í dag í Bretlandi grunaðir um stórfelld innherjasvik. Málið var rannsakað af Fjármálaeftirliti Bretlands (FSA) og Serious Organiesed Crime Agency, (Soca) sem einkum rannsakar skipulagða glæpi. Lögregla gerði húsleit á sextán heimilum og skrifstofum í Lundúnum og nágrenni í dag. Meðal annars var lagt hald á tölvur og skjöl.
Samkvæmt upplýsingum frá FSA voru meðal hinna handteknu háttsettir starfsmenn fjármálastofnana í fjármálahverfi Lundúna og sérfræðingur hjá vogunarsjóði. Um er að ræða stærstu aðgerð vegna innherjasvika í Bretlandi.
Ekki er gefið upp af FSA hvaða fyrirtæki um ræðir en samkvæmt fréttum breskra fjölmiðla eru starfsmenn þýska bankans Deutsche Bank meðal þeirra sem sæta rannsókn. Talsmaður bankans segir að unnið sé með yfirvöldum að rannsókn málsins. Jafnframt er franski bankinn BNP Paribas nefndur til sögunnar.
Jafnframt er rætt um að starfsmaður vogunarsjóðsins Moore Capital sé til rannsóknar, samkvæmt frétt BBC. Talsmaður sjóðsins segir að sjóðurinn vinni með stjórnvöldum að rannsókn málsins.
Rannsókn málsins hefur staðið yfir frá árinu 2007 og er þetta stærsta rannsóknin á innherjasvikum í Bretlandi en um leið fyrsta skipti sem þessar tvær stofnanir vinna saman samkvæmt frétt BBC.
Talið er að svikin snúi að einstaklingunum sjálfum ekki fyrirtækjunum sem þeir störfuðu hjá.