Skuldastaða ríkissjóðs hefur eins og kunnug er gjörbreyst í kjölfar bankahrunsins og í lok síðasta árs var hrein skuldastaða ríkisjóðs með teknu tilliti til eigna 40% af vergri landsframleiðslu (VLF).
Skuldastaðan í lok síðasta árs er því mun verri en í árslok 2008 þegar hún nam rétt rúmlega 10% af VLF og um gríðarlegan viðsnúning er að ræða frá því fyrir hrun, en í árslok 2007 var hrein eignastaða jákvæð um 4% af landsframleiðslu, að því er segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
Heildarskuldir í lok síðasta árs námu 1.176 milljörðum króna sem jafngildir 78% af VLF.
„Þetta er auðvitað slæm staða en ekki má þó gleyma því að Ísland er langt því frá eina ríkið sem glímir við vaxandi skuldir um þessar mundir. Ríkisjóður býr sem betur fer að því að skuldastaðan fyrir hrun var góð, sem gerir það að verkum að þrátt fyrir þennan mikla viðsnúning og stóru áföll er nettóskuldastaðan ekki verri í hlutfalli við landsframleiðslu en gengur og gerist í helstu iðnríkjum í kringum okkur. Af löndum með áþekkt hlutfall og Ísland má t.d. nefna Bandaríkin, Þýskaland og Portúgal en í þessum löndum líkt og svo víða annars staðar hefur staðan farið versnandi í kjölfar kreppunnar," segir í Morgunkorni.
Segir Greining Íslandsbanka að margir hafi af því áhyggjur að ástandið í Grikklandi sé aðeins forsmekkurinn af því sem koma skal í öðrum evruríkjum.
John Lipsky, sem er einn af framkvæmdarstjórum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), gerði vaxandi skuldir að umtalsefni sínu á ráðstefnu í Peking um síðustu helgi. Lipsky sagði m.a. að mörg þróuð iðnvædd hagkerfi glímdu nú við versnandi skuldastöðu hins opinbera og að útlit væri fyrir að öll G7 ríkin að Kanada og Þýskalandi undanskildum myndu sjá heildarskuldir fara upp að eða jafnvel yfir 100% af VLF fyrir árið 2014.
Hér er átt við brúttó skuldastöðu án þess að tillit sé tekið til eigna. Ástandið yrði þá svipað og það varð á árunum eftir seinni heimstyrjöld. Til samanburðar þá var meðaltal heildarskulda iðnríkja 75% í lok árs 2007 en AGS gerir ráð fyrir að þetta meðaltal verði 110% árið 2014, að því er segir í Morgunkorni.