Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að í hans huga leiki enginn vafi á því að mjög erfitt verður að byggja upp skilvirkt fjármálakerfi hérlendis án þess að það fái traustari grunn til að byggja á en íslensku krónuna. Þetta kom fram í erindi ráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands.
Gylfi segir að hann hafi ákveðið að hefja vinnu við endurskoðun löggjafar um Seðlabanka Íslands, sem miði að því að tryggja sjálfstæði Seðlabankans enn betur, skýra til framtíðar markmið bankans og endurskoða þau tæki sem bankinn getur beitt við að ná þeim.
Einkavæðingin gafst enn verr en ríkisreksturinn
„Lengst af var íslenska fjármálakerfið að mestu ríkisrekið og ítök stjórnmálamanna í því voru mikil. Það kerfi gafst afar illa.
Síðan var fjármálakerfið einkavætt og nær öllum hömlum af því létt. Það gafst enn verr. Því kerfi tókst, þótt ótrúlegt megi virðast, á örfáum árum að valda tjóni sem samsvarar margfaldri landsframleiðslu Íslands. Hvorugt kerfið verður endurreist," segir Gylfi.
Hann segir ýmsum spurningum um þetta nýja fjármálakerfi enn ósvarað.
„Sú stærsta er hvaða mynt það mun nota. Óhjákvæmilegt er að fyrstu árin verður grunnur þess íslenska krónan, með öllum sínum kostum og göllum. Fljótlega munum við Íslendingar hins vegar þurfa að gera upp hug okkar um það hvort svo skuli vera til frambúðar eða hvort evran á að leysa íslensku krónuna af hólmi.
Í mínum huga leikur enginn vafi á því að mjög erfitt verður að byggja upp skilvirkt fjármálakerfi hérlendis án þess að það fái traustari grunn til að byggja á en íslensku krónuna. Reynum við það þá munu Íslendingar fyrirsjáanlega búa áfram við óstöðugra verðlag, meiri gengissveiflur og hærri vexti, bæði raunvexti og nafnvexti, en viðskiptalönd okkar.
Þá munum við jafnframt áfram ein landa í okkar heimshluta búa við tvískiptan gjaldmiðil, verðtryggðar og óverðtryggðar krónur. Kostir sveigjanleikans sem sjálfstæð mynt gefur vega ekki þungt á móti þessu.
Jafnvel þótt við sættum okkur við bankakerfi sem verður lítið og að verulegu leyti einangrað frá bankakerfum nágrannalandanna, líkt og hið íslenska var lengst af, þá fylgja því miklir ókostir að byggja það á óstöðugri mynt," segir Gylfi Magnússon.
Verðgildi krónunnar hefur rýrnað um 99,9%
Að sögn Gylfa þarf að bæta fyrir syndir margra áratuga. Íslenska krónan hefur misst meira en 99,9% af kaupmætti sínum, mældum í dönskum krónum, frá því að skilið var endanlega á milli þessara gjaldmiðla fyrir rúmum sjötíu árum. Hefur þó líka verið verðbólga í Danmörku.
„Skýring þessa liggur ekki eingöngu, jafnvel ekki nema að litlum hluta, innan Seðlabankans sjálfs. Hún liggur ekki síður í því hve skelfilega íslenskir stjórnmálamenn fóru með bankann áratugum saman með afskiptum sínum af honum og ákvörðunum hans og með meingallaðri löggjöf.
Það stendur því ekki eingöngu upp á Seðlabankann að senda frá sér skilaboð um breytta tíma. Það er ekki síður mikilvægt að bankinn fái skýr skilaboð frá þeim sem móta umgjörð hans um eðlisbreytingu á henni.
Það verður að hluta gert með breytingum á lögum. Fyrstu skrefin í þá átt hafa þegar verið stigin. Eitt þeirra var að koma á fót sérstakri, sjálfstæðri peningastefnunefnd. Ekki er langt um liðið síðan þetta var gert og því lítil reynsla komin á nýtt fyrirkomulag.
Tel ég þó óhætt að fullyrða að þessi breyting hafi verið mjög til bóta. Fundargerðir nefndarinnar, sem eru birtar opinberlega, bera merki um vel undirbúnar og rökstuddar ákvarðanir.
Það liggur í hlutarins eðli að ákvarðanir nefndar sem þessarar geta verið umdeildar. Slík umræða er eðlileg en það er afar mikilvægt að nefndin fái að starfa í friði og án óeðlilegs þrýstings frá vettvangi stjórnmálanna. Sá sem ætti síst allra að reyna að segja henni fyrir verkum er ráðherrann sem fer með málefni Seðlabankans,"segir ráðherra efnahags- og viðskipta.
Langt í land að ávinna traust á ný
Að sögn Gylfa er nýtt fjármálakerfi risið úr rústum þess sem hrundi en það á langt í land með að vinna sér traust, hvort heldur er innanlands eða utan. Það er eðlilegt í ljósi þess sem á undan hefur gengið, að sögn Gylfa.
„Fjármálafyrirtæki verða ekki hvítþvegin þótt skipt sé um stjórnendur, eigendur, nafn og kennitölu og ógreiddir reikningar eftirlátnir þrotabúum.
Það sama á að ýmsu leyti við um Seðlabankann og almenn fjármálafyrirtæki. Það nægir ekki til að endurreisa bankann að skipa honum nýja stjórnendur og fjármagna að nýju. Gera þarf skýr skil milli fortíðar og framtíðar. Nýir stjórnendur endurreists Seðlabanka þurfa ekki að svara fyrir gerðir forvera sinna en þeir þurfa að sýna með óyggjandi hætti fram á að þeir skilji hvað fór úrskeiðis á árum áður og að þeir muni sjálfir fara allt öðru vísi að.
Sé hægt að senda þjóðinni einhver skilaboð á hálfrar aldar afmæli bankans ættu þau að mínu mati að vera að næsta hálfa öldin verði allt öðru vísi en sú fyrsta í lífi Seðlabankans. Reynsla fortíðarinnar er svo dýru verði keypt að annað verður aldrei hægt að sætta sig við.