Fyrrum njósnari hjá leyniþjónustu Rússa, KGB, Alexander Lebedev, hefur keypt breska dagblaðið Independent og sunnudagsútgáfu blaðsins, Independent on Sunday, á eitt pund, að því er segir í tilkynningu frá útgefanda blaðsins.
Fjárhagsstaða blaðsins er afar slæm líkt og hjá fjölmörgum dagblöðum um þessar mundir. Í viðskiptunum felst, að Independent
News and Media, sem hefur gefið blöðin út, muni greiða 9,23 milljónir punda af skuldum blaðsins á næstu 10 mánuðum en fyrirtækið Independent Print
Limited, sem er í eigu Lebedevs, mun yfirtaka aðrar skuldbindingar.
Lebedev keypti Lundúnablaðið Evening Standard fyrir 1 pund í janúar á síðasta ári. Blaðinu var breytt í fríblað í október.
Lebedev, sem á hlutabréf í rússneskum bönkum og flugfélögum, á 49% hlut í rússneska blaðinu Novaja Gazeta ásamt Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi forseta Sovétríkjanna. Blaðið hefur verið frekar gagnrýnið í garð rússneskra stjórnvalda.