Endurheimtur á 319 milljarða heildarkröfum í þrotabú Baugs stefna, eins og mál standa nú, í að verða á bilinu 1-2%. Eignir félagsins í Bretlandi voru undir eignarhaldsfélaginu BG Holding. Þær voru að mestu veðsettar, en skilanefnd Landsbankans gekk að veðunum í febrúar á síðasta ári.
Svipaða sögu má segja um eignasafn félaga tengdra Baugi hérlendis. Einhverjar breytingar gætu þó orðið á þeim endurheimtuhlutföllum sem um er rætt í dag. Fjárhæð krafna gæti breyst, og ef þrotabúið hefur betur í þeim riftunarmálum sem höfðuð hafa verið gæti staðan batnað.
Stærsta riftunarmálið er vegna sölu Baugs á Högum til eignarhaldsfélagsins 1998 ehf. sumarið 2008. Það riftunarmál snýr ekki að sölunni sem slíkri og skiptastjóri þrotabúsins er ekki á höttunum eftir hlutabréfum Haga, heldur snýr riftunin að ráðstöfun kaupverðsins, en þeir 30 milljarðar sem fengust fyrir Haga voru notaðir í að greiða niður skuldir við Kaupþing og Glitni, auk þess sem 15 milljarðar voru notaðir í að kaupa hlutabréf Gaums, ISP Eignarhaldsfélags og Bague AS í Baugi. Eigendur félaganna eru þau Jón Ásgeir Jóhannesson, Ingibjörg Pálmadóttir og Hreinn Loftsson.
Sjá nánar um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.