Fréttaskýring: Skuldavanda slegið á frest

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands verður uppurinn eftir tvo stóra gjalddaga árin 2011 og 2012, miðað við núverandi stöðu forðans. Þá mun Seðlabankinn skulda 1,1 milljarð evra, sem kemur til greiðslu á árunum þar á eftir.

Í ræðu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á ársfundi bankans í fyrradag kom fram að heildar gjaldeyrisforði Seðlabankans næmi nú um 2,7 milljörðum evra. Skuldir á móti þessum forða næmu 3,8 milljörðum evra og væri hrein staða því neikvæð um 1,1 milljarð evra, eða 192 milljarða íslenskra króna miðað við gengið í dag.

AGS-lán nauðsynlegt til að rúlla lánunum áfram

Miðað við þessa stöðu er því að mati Más nauðsynlegt að fá þau lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum sem eftir á að greiða samkvæmt efnahagsáætlun sjóðsins, alls um 2,5 milljarða evra. Már slær þó varnagla við þessu og segir að það sé meiri forði en við þurfum til lengdar, kosti sitt og nauðsynlegt sé að endurmeta þörfina fyrir þessi lán.

Ef þetta gengi eftir ætti Seðlabankinn 2,5 milljarða evra eftir gjalddagana árin 2011 og 2012. Á móti þeirri eign kæmi hins vegar 3,6 milljarða evra skuld, þannig að hrein staða væri áfram neikvæð um að minnsta kosti 1,1 milljarð sem fyrr, og þá er ekki tekið tillit til vaxtagreiðslna. Því yrði líklega að taka ný lán fljótlega eftir árið 2012 - e.t.v. árið 2014, til þess að lenda ekki í vanskilum eða greiðslufalli.

Skilaskylda gjaldeyris heldur velli að öllu óbreyttu

Hafa verður þó í huga að einhverjar tekjur mun Seðlabankinn hafa í erlendri mynt fram til 2014, en við hlýtur að blasa að miðað við þessa áætlun eru ekki líkur á því að skilaskylda á gjaldeyri verði afnumin fyrir þann tíma. Þannig tekur Seðlabankinn til sín allan gjaldeyri sem myndast í landinu, en einkaðilar sem leggja inn á gjaldeyrisreikning hjá bankanum eiga hann þó áfram, þannig að hann reiknast sem skuld Seðlabankans við innlenda aðila í erlendum gjaldeyri.

Róðurinn þyngist við lækkun gengis krónu

Á móti þessu kemur að ofangreint miðar við að ekki sé gert ráð fyrir breytingum á alþjóðlegu vaxtastigi. Þá myndi lækkun gengis íslensku krónunnar á næstu árum eðli málsins samkvæmt auka skuldabyrðina sem stjórnvöld þurfa að takast á við. Það sama gildir um hækkun alþjóðlegs vaxtastigs. Lánin frá Norðurlöndum bera til að mynda breytilega vexti ofan á þriggja mánaða EURIBOR-vexti. Auk þessa gæti nauðsyn rekið Seðlabankann til þess að styrkja við gengi krónunnar, lækkaði það mikið, til að mynda í kjölfar tilrauna til þess að aflétta gjaldeyrishöftum. Vaxtakostnaður vegna gjaldeyrisforðans er verulegur vegna þess að hann er tekinn að láni og er því ekki raunveruleg eign. Gera má ráð fyrir að leggi bankinn gjaldeyrinn inn á reikning hjá öðrum seðlabanka nemi vaxtatekjurnar um hálfu prósenti um þessar mundir. Þessir innlánsvextir eru umtalsvert lægri en vextirnir á sjálfum gjaldeyrislánunum og þar af leiðandi fylgir lántökunni verulegur kostnaður sem dregur úr sjálfum gjaldeyrisforðanun.

Harkalegar aðgerðir

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á fundi í Háskóla Íslands í fyrradag að án aukinna lána frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þyrfti íslenska ríkið að grípa til „mjög harkalegra aðgerða“ vegna gjalddaganna í desember 2011 og byrjun árs 2012. Þær aðgerðir fælu í sér að reyna að varðveita sem mest af gjaldeyrisforðanum, bæta í hann og nota hann til að greiða þennan eina og hálfa milljarð evra.

„Það er hægt, en það er hins vegar alls ekki spennandi kostur. Ef við færum þá leið myndi líka blasa við að mjög erfitt yrði að endurfjármagna skuldir opinberra og hálfopinberra aðila á borð við sveitarfélög og opinber fyrirtæki,“ sagði Gylfi.

Hann sagðist hafa trú á því að það myndi takast, „en kannski ekki á sérstaklega góðum kjörum.“

Vaxtahækkanir líklegar þrátt fyrir „eðlilegt“ ástand

Undirliggjandi forsenda embættismanna í íslenska stjórnkerfinu virðist vera að aðgengi að fjármálamörkuðum verði greitt og vextir hagstæðir innan fárra ára. Þannig segir í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytis um útgáfu 260 milljarða gengistryggðs skuldabréfs vegna skiptingar þrotabús Landsbankans og nýja bankans að það verði afborgunarlaust fram til ársins 2014 „þegar gjaldeyrismarkaður verður kominn í eðlilegt horf.“ Vera kann að aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum verði greiðara þá en hinsvegar er ekki margt sem bendir til þess að viðmiðunarvextir verði lágir. Þeir eru einmitt í sögulegu lágmarki á Vesturlöndum vegna mikilla vaxtalækkana seðlabanka beggja vegna Atlantsála að undanförnu.

Vegna fjármálakreppunnar hafa ríki þurft að axla gríðarlega miklar skuldir og ljóst er að feikilegt framboð verður af skuldabréfum stórra ríkja á fjármálamörkuðum á næstu árum. Einsýnt er að feikileg fjármögnunarþörf ríkja á borð við Bandaríkin og Bretland mun hafa ruðningsáhrif á mörkuðum. Slík áhrif koma auðvitað fyrst og fremst frá minni ríkjum sem freista þess að fjármagna sig á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Með öðrum orðum felast ruðningsáhrifin í hærri viðmiðunarvöxtum sem áhættuálag einstakra ríkja leggst svo ofan á.

Við þetta bætist svo að peningaprentun seðlabanka mun á einhverjum tíma leiða til þess að verðbólguþrýstingur brýst fram. Það kallar á vaxtahækkanir seðlabanka og þar af leiðandi á hækkun viðmiðunarvaxta á borð við EURIBOR og LIBOR. Í þessu samhengi er einnig vert að hafa í huga að slíkir viðmiðunarvextir hafa verið býsna lágir það sem af er þessari öld. Ekkert segir að það sé regla fremur en undantekning. Þannig má benda á á LIBOR-vextir á þriggja mánaða lánum voru á bilinu 5 til 10% stærstan hluta tíunda áratugar síðustu aldar.

Það kann því að fara svo að aðgengi stjórnvalda að erlendum lánsfjármörkuðum yrði með miklum ágætum eftir fáein ár en hinsvegar er alls ekki útilokað að kjörin sem myndu bjóðast yrðu afar óhagstæð og þá eingöngu útfrá óhagstæðum ytri forsendum og óháð því hvernig tekst til með stjórn peninga- og efnahagsmála hér á landi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK