Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands verður uppurinn eftir tvo stóra gjalddaga árin 2011 og 2012, miðað við núverandi stöðu forðans. Þá mun Seðlabankinn skulda 1,1 milljarð evra, sem kemur til greiðslu á árunum þar á eftir.
Í ræðu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á ársfundi bankans í fyrradag kom fram að heildar gjaldeyrisforði Seðlabankans næmi nú um 2,7 milljörðum evra. Skuldir á móti þessum forða næmu 3,8 milljörðum evra og væri hrein staða því neikvæð um 1,1 milljarð evra, eða 192 milljarða íslenskra króna miðað við gengið í dag.
Ef þetta gengi eftir ætti Seðlabankinn 2,5 milljarða evra eftir gjalddagana árin 2011 og 2012. Á móti þeirri eign kæmi hins vegar 3,6 milljarða evra skuld, þannig að hrein staða væri áfram neikvæð um að minnsta kosti 1,1 milljarð sem fyrr, og þá er ekki tekið tillit til vaxtagreiðslna. Því yrði líklega að taka ný lán fljótlega eftir árið 2012 - e.t.v. árið 2014, til þess að lenda ekki í vanskilum eða greiðslufalli.
„Það er hægt, en það er hins vegar alls ekki spennandi kostur. Ef við færum þá leið myndi líka blasa við að mjög erfitt yrði að endurfjármagna skuldir opinberra og hálfopinberra aðila á borð við sveitarfélög og opinber fyrirtæki,“ sagði Gylfi.
Hann sagðist hafa trú á því að það myndi takast, „en kannski ekki á sérstaklega góðum kjörum.“
Vegna fjármálakreppunnar hafa ríki þurft að axla gríðarlega miklar skuldir og ljóst er að feikilegt framboð verður af skuldabréfum stórra ríkja á fjármálamörkuðum á næstu árum. Einsýnt er að feikileg fjármögnunarþörf ríkja á borð við Bandaríkin og Bretland mun hafa ruðningsáhrif á mörkuðum. Slík áhrif koma auðvitað fyrst og fremst frá minni ríkjum sem freista þess að fjármagna sig á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Með öðrum orðum felast ruðningsáhrifin í hærri viðmiðunarvöxtum sem áhættuálag einstakra ríkja leggst svo ofan á.
Við þetta bætist svo að peningaprentun seðlabanka mun á einhverjum tíma leiða til þess að verðbólguþrýstingur brýst fram. Það kallar á vaxtahækkanir seðlabanka og þar af leiðandi á hækkun viðmiðunarvaxta á borð við EURIBOR og LIBOR. Í þessu samhengi er einnig vert að hafa í huga að slíkir viðmiðunarvextir hafa verið býsna lágir það sem af er þessari öld. Ekkert segir að það sé regla fremur en undantekning. Þannig má benda á á LIBOR-vextir á þriggja mánaða lánum voru á bilinu 5 til 10% stærstan hluta tíunda áratugar síðustu aldar.
Það kann því að fara svo að aðgengi stjórnvalda að erlendum lánsfjármörkuðum yrði með miklum ágætum eftir fáein ár en hinsvegar er alls ekki útilokað að kjörin sem myndu bjóðast yrðu afar óhagstæð og þá eingöngu útfrá óhagstæðum ytri forsendum og óháð því hvernig tekst til með stjórn peninga- og efnahagsmála hér á landi.