Gengið hefur verið frá kaupum kínverska félagsins Zhejiang Geely Holding á sænska bílaframleiðandanum Volvo. Hefur verið rætt um kaup félagsins á Volvo frá því á síðasta ári en Ford Motor, móðurfélag Volvo, hefur átt í viðræðum við Geely frá því í október.
Mjög náin tengsl eru milli Volvo-verksmiðjanna og móðurfélagsins, en Ford framleiðir m.a. vélar og aðra stóra íhluti í Volvo-bíla. Hafa sumir áhyggjur af því að kínverska félagið muni misnota þessi tengsl til að afla sér þekkingar á framleiðslu og framleiðsluaðferðum Volvo og Ford.