Frestur fjölmiðlasamsteypunnar 365 til að reiða fram aukið hlutafé upp á einn milljarð króna rennur út á morgun, 1. apríl. Ekki liggur fyrir hverjir nýir hluthafar fyrirtækisins verða.
Ari Edwald, forstjóri 365, segir að samkvæmt ákvæðum lánasamnings fyrirtækisins sé áskilið að nýtt hlutafé berist inn í reksturinn 1. apríl. „Þetta skilyrði lánasamninga okkar verður uppfyllt, og það á raunar við um öll önnur skilyrði í okkar lánasamningum. Þau eru öll uppfyllt upp á punkt og prik,“ segir Ari í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að hlutafjáraukningin muni ekki hafa nein straumhvörf í för með sér hvað varðar eignarhald fyrirtækisins. „Það hefur legið skýrt fyrir hverjir hafa verið í meirihlutaforystu, og það verður engin breyting þar á,“ segir Ari Edwald.