Samkvæmt nýrri rannsókn á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins hefur styrkjakerfið til sjávarútvegs stuðlað að ofveiði og of mikilli sóknargetu fiskveiðiflotans.
Írska fréttastofan RTÉ segir frá rannsókninni, en sérfræðingar Poseidon Aquatic Resource stóðu að henni ásamt Pew Environment Group. Hún nær til áranna 2000 til 2006 og tók til þeirra tíu aðildarríkja ESB sem fá stærstan hluta af þeim 5 milljörðum evra sem sambandið ver til niðurgreiðslu sjávarútvegs.
Í ljós kom að þriðjungi upphæðarinnar var varið í fjárfestingar sem stuðla að ofveiði, á meðan aðeins 17% af upphæðinni fóru til aðgerða sem stuðla að sjálfbærum fiskveiðum.