Fasteignajöfurinn Simon Halabi, hvers eignir voru metnar að andvirði 3 milljarða punda árið 2007, var á þriðjudag úrskurðaður gjaldþrota vegna 56,3 milljóna punda láns sem hann fékk frá Kaupþing Singer & Friedlander bankanum í Bretlandi.
The Guardian segir frá því að Halabi, sem er af sýrlenskum ættum, sé einn allra ríkasti auðjöfurinn sem fallið hefur frá ríkidæmi til gjaldþrots í kreppunni. Meðal eigna hans voru höfuðstöðvar JP Morgan, Aviva, RSA og klúbburinn In and Out Club á Piccadilly í London.
Gjaldþrotakrafan var að sögn Guardian gerð í fyrra af endurskoðendafyrirtækinu Ernst & Young, sem fer með skiptastjórn Kaupþings í Bretlandi, yfir skuldinni. Halabi var sjálfur ekki viðstaddur þegar krafan var tekin fyrir dómi. Lögmaður Ernst og Young sagði fyrir dómi að Halabi hefði ekki brugðist við kröfunni að neinu leyti og raunar væri ekki ljóst hvar hann væri að finna, þótt hann sé skráður með heimilisfang á hóteli í Sviss.
Lánið frá Kaupþing Singer & Friedlander, upp á 56,3 milljóna punda, var að sögn Guardian veitt gegn persónulegri ábyrgð Halabi vegna yfirtöku hans á líkamsræktarkeðjunni Esporta árið 2007.