Fréttaskýring: Stjórnendur vogunarsjóða mala gull

Bandaríski kaupsýslumaðurinn George Soros er einskonar tákn fyrir vogunarsjóði.
Bandaríski kaupsýslumaðurinn George Soros er einskonar tákn fyrir vogunarsjóði.

Stjórnendur helstu vogunarsjóða heims hafa malað gull á undanförnum misserum vegna þess að sjóðirnir veðjuðu á að fjármálalíf heimsins myndi byrja að ná sér á strik á ný á þegar líða færi á síðasta ári eftir að hafa fengið ríkisstyrki.

Fjármálatímaritið AR Absolute Return+Alpha segir, að  forstjórar 25 helstu alþjóðlegu vogunarsjóðanna hafi fengið samtals 25,33 milljarða dala, jafnvirði 3250 milljarða króna, í laun á síðasta ári. Tvöfölduðu þeir laun sín frá árinu 2008.

Tímaritið segir, að árið 2009 hafi verið það besta í sögu ríkustu vogunarsjóðanna og rekja megi það beint til fjármálakreppunnar árið 2008. Sjö forstjórar hafi fengið yfir 1 milljarð dala í laun fyrir síðasta ár en sá sem var í 25. sæti fékk 350 milljónir dala.

David Tepper, forstjóri Appaloosa Management, sem veðjaði á að bankar og bandaríska tryggingafélagið AIG myndu komast á lappirnar á ný eftir að hafa fengið opinbera fjárhagsaðstoð, fékk 4 milljarða dala í laun á síðasta ár sem mun vera nýtt met í þessum  geira. 

„Við veðjuðum á að landið myndi rísa að nýju,” sagði Tepper í viðtali við New York Times og lýsti fjárfestingarstefnu sinni sem blöndu af nákvæmri greiningu og heilbrigðri skynsemi. „Þeim sem halda ró sinni á sama tíma og aðrir eru skelfingu lostnir gengur yfirleitt vel.”

Bandaríski kaupsýslumaðurinn George Soros, sem græddi á sínum tíma offjár á að veðja á að Bretland myndi fara út úr evrópska myntsamstarfinu, fékk næsthæstu launin á síðasta ár, 3,3 milljarða dala. James Simmons, forstjóri Renaissance Technologies, fékk 2,5 milljarða og John Paulson, sem átti gamla launametið, 3,7 milljarða dala sett árið 2007, var fjórði með 2,4 milljarða dala á síðasta ári. Steve Cohen, forstjóri Sac Capital, var í 5. Sæti með 1,4 milljarða dala.

„Þessar tölur eru ógnvekjandi en rökréttar í fjármálaheiminum,” segir Sophie van Straelen, starfsmaður greiningarfyrirtækisins Asterias. Hún segir að þessir gulldrengir hafi einfaldlega gripið fjárfestingartækifæri sem buðust þegar eignir fyrirtækja voru settar á brunaútsölu.

Þegar allir veltu því fyrir sér hvort bankar myndu lifa af eða hvort þeir yrðu þjóðnýttir urðu men að vera djarfir. Þeir njóta uppskerunnar nú,” segir ónafngreindur framkvæmdastjóri vogunarsjóðs í París. .

Vogunarsjóðir keyptu hlutabréf og aðrar eignir þegar verðið lækkaði vegna svonefndrar undirmálslánakreppu í Bandaríkjunum, sem síðan olli alþjóðlegu fjármálakreppunni. Sjóðirnir veðjuðu á, að ríkisstjórnir myndu koma fjármálastofnunum til bjargar og hindra þannig algert hrun bankakerfa.  Ekki er búist við að vogunarsjóðaforstjórarnir afli jafn mikilla tekna á þessu ári og því síðasta vegna þess að fjármálamarkaðir eru að jafna sig og ofsagróðatækifærum hefur fækkað mikið.

Margir telja, að vogunarsjóðir hafi átt stóran þátt í fjármálakreppunni og ríkisstjórnir í Evrópu og Bandaríkjunum vilja herða reglur um starfsemi þeirra.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK