Afkoma Landsbankans var jákvæð um rúma 14,3 milljarða króna eftir skatta á síðasta ári sem var fyrsta heila starfsár bankans. Arðsemi eigin fjár var 10% sem er nokkuð lægra en sá fjármagnskostnaður sem ríkið ber af hlutafjárframlagi sínu til bankans. Á sama tíma mældist ársverðbólga 8,63%.
Ásmundur Stefánsson, bankastjóri, segir í tilkynningu að gríðarlegar breytingar hafi orðið hjá bankanum frá bankahruninu í október 2008. Miklar breytingar hafi orðið á stjórnendahópi og flestir verkferlar verið endurskoðaðir. Á sama tíma áttu sér stað margslungnar samningaviðræður við Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. um yfirtöku og mat á eignum.
„Stærsta verkefni bankans í nánustu framtíð er að endurvinna traust viðskiptavina. Það verður ekki gert á einu ári, en mikilvæg skref í þá átt hafa verið stigin með skuldaaðlögun fyrir fyrirtæki og einstaklinga og styrkingu innviða bankans," segir Ásmundur.
Heildareignir bankans voru 1061 milljarðar króna við árslok 2009. Innlán viðskiptavina námu 453 milljörðum króna og útlán til viðskiptavina námu 667 milljörðum króna í árslok 2009. Um fjórðungur heildarútlána er til sjávarútvegsfyrirtækja og ríflega fjórðungur til einstaklinga.
Rekstrarkostnaður bankans af reglulegri starfsemi nam 15,8 milljörðum króna. Laun og launatengd gjöld voru 8,5 milljarðar króna. Í árslok 2009 voru 1161 stöðugildi í Landsbankanum.