Djúpstæð skuldakreppa fullvalda ríkja yfirvofandi

Bein leið - niður á við.
Bein leið - niður á við. JOHN KOLESIDIS

Skuldakreppa fullvalda ríkja er við það að brjótast fram að fullum krafti. Skuldastaða ríkja á borð við Bandaríkin, Bretland, Japan og ríkja Evrópu nálgast hættumark og gæti komið af stað djúpstæðri kreppu á skuldabréfamörkuðum sem myndi svo hafa alvarlegar afleiðingar fyrir alþjóðahagkerfið. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Alþjóðagreiðslubankans í Basel (e. Bank for International Settlements).

Í rannsókninni er fullyrt að afleiðingar fjármálakreppunnar sem braust fram með fullum krafti haustið 2008 - sem meðal annars hafa komið fram með þeim hætti að fullvalda ríki hafa þurft að axla víðtækar skuldbindingar fjármálafyrirtækja á sama tíma og skatttekjur hafa dregist verulega saman - hafi þrengt verulega að getu ríkja til þess að standa undir skuldbindingum sínum. Þróuð hagkerfi verði að grípa til víðtækra aðhaldsaðgerða í ríkisútgjöldum til þess að draga úr hættunni á því að vextir hækki upp úr öllu valdi.

Eins og fram kemur í frétt The Daily Telegraph um rannsókn Alþjóðagreiðslubankans snýst málið um hvenær fjárfestar fara að krefjast hærri áhættuþóknunar fyrir kaup á skuldabréfum fullvalda ríkja. Skyndileg hækkun á ávöxtunarkröfu skuldsettra ríkja gætu leitt til þess að vaxtagreiðslur af þeirri skuld sem hvílir á þeim nú þegar verði einar og sér það miklar að skuldastaðan verði ósjálfbær.

Rannsóknir hagfræðinganna Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff sýna að skuldaþol einstakra ríkja er mismunandi og því er varla eingöngu hægt að horfa á skuldir hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu og bera það saman við önnur ríki til þess að greina áhættu skuldastöðunnar. Þannig virðast sum ríki fjármagnað sig á ásættanlegum kjörum þó svo að skuldirnar séu yfir 100% af landsframleiðslu á meðan að önnur lenda í greiðslufalli með hlutfall skulda af landsframleiðslu sem er mun lægra. Það sem virðist skipta sköpum í þessu samhengi er hvenær fjárfestar fara krefjast svo hárrar áhættuþóknunar að skuldastaðan verði ósjálfbær. Í ljósi þeirrar staðreyndar að stærstu hagkerfi heims þurfa nú flest á sama tíma að gefa út gríðarlegt magn af ríkisskuldabréfum til þess að fjármagna hallarekstur er umtalsverð hætta á því að ruðningsáhrif á vaxtakjör muni eiga sér stað. Það er að segja að mikil skuldabréfaútgáfa eins ríkis leiði til þess að vaxtakjör annarra hækkar þó svo að efnahagsstaða gefi ekki beint tilefni til þess.

Samkvæmt frétt The Telegraph  telja sérfræðingar Alþjóðagreiðslubankans opinberar tölur á Vesturlöndum um skuldastöðu ríkja vera villandi. Sérstaklega í ljósi þess að þær taka ekki tillit til vaxandi lífeyrisskuldbindinga. Á þetta sérstaklega við ríki þar sem hlutfall lífeyrisþega af íbúunum fer hratt vaxandi en fram kemur í rannsókninni að fjárlagagerð taki ekki tillit framtíðarkostnaðar þessarar þróunar.
 
Í rannsókninni kemur meðal annars fram að hlutfall skulda hins opinbera af landsframleiðslu í þróuðum hagkerfum hefur aukist að meðaltali um 20 til 30% síðustu þrjú ár. Við þetta bætast eðlisbreytingar á þessum hagkerfum sem gera það að verkum að halli myndi vera á ríkisfjárlögum að öllu óbreyttu þó svo að hagvöxtur væri viðvarandi og sjálfbær. Samkvæmt spá Alþjóðagreiðslubankans þó mun skuldahlutfallið verða að meðaltali um 100% af landsframleiðslu við lok næsta árs. Eins og fram kemur í frétt The Telegraph þá hafa slík hlutföll ekki sést síðan frá lokum síðari heimstyrjaldar. Fram kemur í rannsókninni að það sé mikil bjartsýni að hægt verði að fjármagna slíka og víðtæka skuldasöfnun miðað við óbreytt vaxtastig í heiminum.

Lausnin á þessu felst í því að efla langtímahagvöxt og stemma stigu við skuldasöfnun. Að mati Alþjóðagreiðslubankans er ekki líklegt að þau ríki sem tilheyra Efnahags- og framfarastofnuninni feti þessa leið. Sökum þess er hætta á því að fjárfestar óttist í vaxandi mæli að stjórnvöld bregðist við skuldasöfnuninni með peningaprentun. Óttinn við þetta kann að magna upp verðbólguvæntingar og það eitt og sér getur leitt til umtalsverðar hækkana á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Þrátt fyrir þessa áhættu kemur fram í rannsókninni að hættan á slíkri peningaprentun og verðbólgu í kjölfarið sé ekki lítil til lengri tíma.

Eins og bent er á í frétt The Daily Telegraph þá er ekki fjallað um í skýrslunni hvaða afleiðingar það hefði verið þann máttlitla viðsnúning sem þó hefur átt sér stað í helstu hagkerfum Evrópu og Norður-Ameríku ef að stjórnvöld myndu draga verulega úr útgjöldum fyrr frekar en síðar. Sökum þess hve lítil einkaneysla og fjárfesting er í einkageiranum beggja vegna Atlantsála þykir umtalsverð hætta á því að slík stefna myndi leiða til annarrar djúpstæðrar niðursveiflu í alþjóðahagkerfinu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK