Jón Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóri matvöruverslunarinnar Kosts, segir að hann hafi ekki fengið neina fyrirgreiðslu í bankakerfinu. Hann segir þetta skjóta skökku við í ljósi þeirrar miklu lánafyrirgreiðslu sem samkeppnisaðilar hans hafi fengið og fái enn í bankakerfinu.
Jón Gerald opnaði Kost snemma í vetur og hann segir að rekstur búðarinnar hafi gengið vel. Hann segir að það veki athygli að svo virðist sem samkeppnisaðilar Kost séu með óendanlegt fjármagn til að auglýsa í blöðum dag eftir dag. Kostur geti ekki auglýst með sama hætti.
„Ég hef ekki fengið neina fyrirgreiðslu hjá bönkunum. Ég er að reka fyrirtæki sem er ekki með nein lán. Það hefur ekki þurft að biðja um neinar afskriftir, en fær samt enga fyrirgreiðslu. Þetta er mjög óeðlileg staða,“ sagði Jón Gerald.
Sjá nánar í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.