Hópur fjárfesta undir forystu Guðmundar Arasonar, fyrrverandi forstjóra Securitas, skrifaði í gær undir kaupsamning á öllu hlutafé í Securitas hf. Kaupin eru gerð í framhaldi af opnu söluferli sem Óskar Sigurðsson hrl. hjá JP Lögmönnum hefur stýrt fyrir hönd þrotabús Fons hf.
Í tilkynningu frá JP-lögmönnum segir að kaupendahópurinn samanstandi af sex „reyndum fjárfestum með breiða skírskotun og mikla þekkingu á starfsemi félagsins." Hópinn skipa þeir Kristinn Aðalsteinsson, Titan Fjárfestingarfélag, Auður 1 fagfjárfestasjóður, sem er undir stjórn Auðar Capital, Árni Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri gæslusviðs Securitas, Pálmar Þórisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri tæknisviðs Securitas, auk Guðmundar Arasonar.
Átján skiluðu inn viljayfirlýsingu
Söluferlið hófst um miðjan febrúarmánuð með birtingu auglýsinga í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu en frekari upplýsingar um söluferlið voru birtar á heimasíðu JP Lögmanna. Alls óskuðu um 40 aðilar eftir fyrstu upplýsingum um Securitas og 18 þeirra skiluðu inn viljayfirlýsingum um kaup á félaginu.
Voru viljayfirlýsingarnar, ásamt fjárhagslegum styrk viðkomandi, metnar af óháðum endurskoðanda. Var þeim átta aðilum sem lögðu fram hæstar verðhugmyndir og sýndu jafnframt fjárhagslega getu í samræmi við þær heimilað að kynna sér frekari gögn um félagið og leggja fram skuldbindandi tilboð. að því er segir í tilkynningunni.
Alls bárust fjögur tilboð í félagið þann 29. mars sl. Tilboðin voru opnuð í
viðurvist bjóðenda og lesin í heyranda hljóði. Að fengnu mati óháðs
endurskoðanda ákvað skiptastjóri að ganga til viðræðna við fyrrgreindan hóp
fjárfesta, en sá hópur lagði fram hæsta tilboðið í söluferlinu, segir í tilkynningunni en ekki er gefið upp hve hátt tilboðið var.