Sparisjóður Vestmannaeyja hefur höfðað dómsmál á hendur tveimur ábyrgðarmönnum konu sem fór í greiðsluaðlögun. Sparisjóðurinn krefst þess að ábyrgðarmennirnir greiði skuldir hennar þrátt fyrir að það sé bannað samkvæmt lögum. Sjóðurinn telur ákvæðin í nýlegum ábyrgðamannalögum ganga gegn stjórnarskrá. Stöð 2 greindi frá þessu í kvöld.
Konan, sem er 75% öryrki á fimmtugsaldri, fékk greiðsluaðlögun samþykkta í héraðsdómi sl. haust, skuldaði hún sparisjóðnum tvær milljónir króna. Í frétt Stöðvar 2 kom fram að samkvæmt lögum, sem sett voru á síðasta ári, eiga ábyrgðarmenn fólks í greiðsluaðlögun ekki að gangast í ábyrgð fyrir skuldir viðkomandi. Á þetta féllst sparisjóðurinn ekki og ákvað að höfða mál á hendur bróður konunnar og áttræðrar móður hennar.
Dóms er að vænta í málinu í næstu viku, samkvæmt Stöð 2.