Skoska heimastjórnin er sögð vera með slíkt „ofnæmi fyrir Íslandi” eftir bankahrunið hér, að hún sé hætt við að efla viðskiptatengsl við Íslendinga. Fyrir tveimur árum hafi ráðherrar í skosku heimastjórninni hins vegar lýst Íslandi sem fyrirmyndarríki ásamt Noregi og Írlandi, sem Skotland myndi einn daginn slást í lið með. Var hugtakið „hagsældarboginn” notað fyrir þessi nágrannalönd Skotlands. Sagt er frá þessu á vefútgáfu skoska blaðsins the Herald.
Þrátt fyrir að forsætisráðherra Skotlands, Alex Salmond, hafi upphaflega, á fundi með ræðismanni Íslands, stutt hugmyndina um að sendinefndir færu á milli Íslands og Skotlands til að kanna möguleika á aukinni verslun og viðskiptum, hafi skrifstofa hans nú komið í veg fyrir slíkar ferðir í eitt og hálft ár. Sú hranalega framkoma hafi farið illa í skapið á íslenska ræðismanninum.
Cameron Buchanan, hinn skoski ræðismaður Íslands í Edinborg, hefur nú sagt þingmönnum á skoska þinginu að það hafi reynst honum afar erfitt að komast nokkuð áfram með forsætisráðherranum, þegar hann hafi reynt að koma á viðræðum um aukin viðskiptatengsl. Honum sýndist að skoska heimastjórnin væri með „dálítið ofnæmi” fyrir Íslandi, vegna fjármálavandræða þess.
„Pólitísk skilaboð þeirra voru, ef þið munið eftir því, „hagsældarboginn”. Nú er það „greiðsluþrotsboginn” og mér finnst þeir vera dálítið uppstökkir út af því.
Umfjöllunina í heild sinni má lesa hér.