Þekktur kaupsýslumaður í Bretlandi, Ravi Sinha, fyrrum yfirmaður bandaríska fjárfestingafélagsins JC Flowers í Evrópu, er til rannsóknar hjá þarlendum yfirvöldum sakaður um að hafa misfarið með 1,3 milljónir punda, jafnvirði um 250 milljóna króna. Sinha fékk á sínum tíma lán frá Kaupþingi til að fjármagna kaup í sjóðum á vegum JC Flowers.
Rannsóknin nú er sögð varpa nýju ljósi á skyndilegt brotthvarf Sinha frá JC Flowers á síðasta ári, sem kom flestum á óvart í fjármálaheiminum í London. Hann er nú sakaður um að tekið til sín himinháar þóknanir fyrir viðskipti með fyrirtæki í Lúxemborg, sem áttu að renna beint til JC Flowers.
Bandaríska fjárfestingafélagið, JC Flowers, var um tíma meðal hluthafa í Kaupþingi og í nánum viðskiptatengslum við bankann. Meðal annars fjármagnaði JC Flowers tilboð Kaupþings í hollenska bankann NIBC, sem síðar varð ekkert úr sem kunnugt er.
Sinha starfaði áður hjá Goldman Sachs en í störfum sínum hjá JC Flowers fór hann fyrir tilraunum fyrirtækins til að kaupa Northern Rock bankann, Bradford & Bingley og Friends Provident. Einnig hefur hann verið í góðum tengslum við breska ráðherra og embættismenn eftir að efnahagskreppan skall á, samkvæmt frásögn Sunday Times í dag.
Breska fjármálaeftirlitið og Sinha sjálfur hafa neitað að tjá sig um þessa rannsókn en talsmaður JC Flowers staðfesti að Sinha hefði yfirgefið fyrirtækið eftir að upp komst um misferlið og það verið tilkynnt rakleiðis til yfirvalda.