Gögn vegna tuga mála afhent yfirvöldum

Skilanefndin hefur brugðist við skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Skilanefndin hefur brugðist við skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Öll mál Kaupþings í skýrslu Rannsóknarnefndar hafa verið skoðuð hjá skilanefnd Kaupþings. Gögn vegna tuga mála hafa verið afhent yfirvöldum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá skilanefnd Kaupþings vegna skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

„Í kjölfar birtingar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hafa skilanefnd Kaupþings og starfsmenn hennar farið yfir og greint þær upplýsingar úr skýrslunni er snúa að Kaupþingi og metið hvort allt sem þykir athugavert  við starfsemi Kaupþings í skýrslunni hafi verið skoðað af skilanefnd.

Niðurstaðan er sú að öll mál sem tengjast Kaupþingi og tekin eru fyrir í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hafa verið í athugun hjá skilanefnd Kaupþings. Samkvæmt lögum er meginmarkmið skilanefndar að hámarka endurheimt fjármuna sem tilheyra Kaupþingi og kröfuhöfum hans. Í þeim tilvikum þar sem skilanefnd hefur í störfum sínum öðlast vitneskju um atvik sem geta gefið tilefni til rökstudds gruns um refsivert athæfi ber henni lögum samkvæmt að tilkynna það yfirvöldum. Frá því skilanefnd Kaupþings tók til starfa 9. október 2008 hefur hún átt gott samstarf við yfirvöld og afhent mikið magn gagna er varða tugi mála sem hafa verið í athugun hjá yfirvöldum. Um er að ræða ýmis viðskipti sem í einhverjum tilvikum hlaupa á tugum eða jafnvel hundruðum milljarða króna.


Athugun skilanefndar Kaupþings hefur meðal annars beinst að lánum til tengdra aðila og stærri viðskiptamanna bankans, óreglulegum viðskiptum og viðskiptum við eða í gegnum dótturfélög bankans erlendis.
Skilanefnd Kaupþings hefur í öllum tilvikum upplýst þar til bær yfirvöld jafnóðum um atvik sem geta gefið tilefni til rökstudds gruns um refsivert athæfi. Rétt er að benda á að skilanefnd er óskylt að leita eftir slíkri
vitneskju umfram það sem leiðir af upplýsingaöflun í störfum hennar.


Skilanefnd Kaupþings hefur veitt aðilum sem unnið hafa að rannsókn mála í kjölfar bankahruns, þ.m.t. Sérstökum saksóknara, Fjármálaeftirlitinu, Rannsóknarnefnd Alþingis, Ríkisskattstjóra og Skattrannsóknarstjóra alla þá aðstoð sem óskað hefur verið eftir við rannsókn mála. Jafnframt hefur
skilanefnd fúslega veitt fyrrgreindum aðilum greiðan aðgang að öllum gögnum og upplýsingum sem óskað hefur verið eftir. Skilanefnd hefur svarað öllum erindum frá þeim og m.a. útbúið sérstaka aðstöðu til að
auðvelda þeim störf sín.


Skilanefnd hefur notið aðstoðar færustu sérfræðinga við athuganir sínar, þ.m.t. sérfræðinga í réttarrannsóknum (e. forensic auditors) frá Grant Thornton í Bretlandi og lögmanna frá alþjóðlegu lögmannsstofunni Weil, Gotshal & Manges. Þessir aðilar hafa fjölþætta og alþjóðlega reynslu af meðferð gjaldþrotamála og rannsóknum og úrvinnslu mála á því sviði. Þá hefur skilanefnd boðið rannsóknaraðilum aðgang að upplýsingum og gögnum sem hún hefur aflað og unnið með aðstoð erlendra ráðgjafa sinna.


Haustið 2008 réð skilanefnd Kaupþings, alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækið Pricewaterhouse Coopers (PwC) til að framkvæma ítarlega skoðun á atburðum síðustu vikna fyrir fall bankans. Skýrsla um niðurstöður rannsóknarinnar lá fyrir í desember 2008 og var henni skilað til Fjármálaeftirlitsins. Í ágúst 2009 réð slitastjórn Kaupþings PwC til að rannsaka aðgerðir Kaupþings banka fram að greiðslustöðvun og kanna sérstaklega í nánu samstarfi við eftirlitsnefnd skilanefndar Kaupþings möguleika á riftunum gjörða bankans tvö ár aftur í tímann og meta hvort bankinn ætti rétt á bótakröfum vegna viðskiptagjörninga. Slitastjórn hefur þegar vísað málum til viðkomandi yfirvalda á grundvelli rannsóknarinnar og fjöldi riftunarmála og annarra mála eru í farvegi og munu líta dagsins ljós á næstunni,“ segir frá yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK