Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið námu samanlagðar skuldir fyrirtækjahópa á vegum þeirra feðga Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar við bankakerfið hér á landi um milljarði evra við fall bankanna haustið 2008.
Hér er tekið tillit til eignarhalds þeirra feðga á Samson, stærsta hluthafa Landsbankans, en félög tengd feðgunum skulduðu jafnframt háar upphæðir hjá dótturfélagi Landsbankans í Lúxemborg eða um 320 milljónir evra.
Björgólfsfeðgar skipa því þann hóp einstaklinga sem höfðu eignatengsl við fyrirtæki sem samanlagtskulduðu yfir milljarð evra í íslenska bankakerfinu.
Sem kunnugt er leiðir skýrsla rannsóknarnefndarinnar í ljós að íslensku bankarnir voru stórtækir í útlánum til eigenda sinna og fyrirtækja á þeirra vegum. Þrátt fyrir að reglur kveði á um takmarkanir á hámarksáhættu í einstaka útlánum miðað við eiginfjárgrunn þeirra og skynsamleg áhættustýring gangi út frá því að bankar reyni að dreifa útlánaáhættu þá virðast stjórnendur íslensku bankanna hafa leitt það hjá sér og einbeitt sér að samþjöppun útlánaáhættu.
Sjá ítarlega umfjöllun um þetta í Morgunblaðinu í dag.