Gildi skerðir aftur réttindi

Sjómenn eru meðal félagsmanna í lífeyrissjóðnum Gildi.
Sjómenn eru meðal félagsmanna í lífeyrissjóðnum Gildi. Helgi Bjarnason

Lífeyrissjóðurinn Gildi ætlar að leggja til við ársfund sjóðsins að réttindi sjóðsfélaga verði lækkuð  um 7% í ár. Ekki er nema ár síðan réttindi sjóðsfélaga voru lækkuð um 10%.

Gildi birti í dag upplýsingar um afkomu í fyrra. Nafnávöxtun sjóðsins var 6,8% sem jafngildir 1,5% neikvæðri ávöxtun. Raunávöxtun árið 2008 var neikvæð um 26,6%.

Meðalraunávöxtun sl. 5 ár er -1% og 2% sl. 10 ár. Ávöxtun innlendra hlutabréfa var 0,9% og erlendra hlutabréfa 36% í íslenskum krónum. Til samanburðar má geta þess að heimsvísitala hlutabréfa (MSCI) hækkaði um 34,5% í fyrra. Raunávöxtun skuldabréfa var -3% og skýrist neikvæð ávöxtun af niðurfærslu á skuldabréfum fyrirtækja og fjármálastofnana.

Staða sjóðsins er innan þeirra marka sem bráðabirgðaákvæði laga um lífeyrissjóði setur og því er ekki skylt að breyta réttindum sjóðsfélaga. „Það er hins vegar markmið að reka sjóðinn þannig að staða hans sé sem næst því að vera í jafnvægi,“ segir í auglýsingu frá Gildi.

Stjórn Gildis hefur því ákveðið að leggja til við ársfund, sem haldinn verður 28. apríl nk., að áunnin réttindi sjóðsfélaga verði lækkuð um 7% frá 1. janúar sl. Lækkun á greiðslum til lífeyrisþega komi í tvennu lagi, 3,5% 1. júní og 3,5% 1. nóvember nk.

Á ársfundi Gildis – lífeyrissjóðs í fyrra var samþykkt tillaga stjórnar sjóðsins um að áunnin réttindi sjóðfélaga yrðu lækkuð um 10%. Réttindin voru hins vegar hækkuð um 10% árið 2007 og 7% árið 2006. Sú hækkun hefur því að fullu gengið til baka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK