Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sagði á aðalfundi samtakanna í dag, að það tímabil þegar eignarhaldsfélög og fjármálafyrirtæki gerðust hvað umsvifamest hafi verið ótrúlega stutt. Ógnvænlegt sé hvað unnt var að valda miklum skaða á skömmum tíma.
„Samtök atvinnulífsins voru andvaralaus gagnvart því sem raunverulega var að gerast og tóku ekki mark á þeim aðvörunum sem þó komu fram á þessu tímabili um hætturnar sem hagkerfinu voru búnar. Samtökin munu taka alvarlega ábendingar sem fram koma í viðauka skýrslunnar um siðferði og starfshætti í tengslum við fall íslensku bankanna árið 2008. Farið verður yfir ábendingarnar og metið hvað megi betur fara í starfsemi samtakanna og hvort setja eigi viðmiðunarreglur fyrir þá sem starfa á vegum SA í stjórnum sjóða og stofnana," sagði Vilmundur.
Hann sagði, að yfirgnæfandi hluti fyrirtækja hefði ekki tekið þátt í þeirri hegðan sem lýst sé í
skýrslu rannsóknarnefndarinnar þótt annað mætti halda af umræðum. Þvert á móti
stundi flestir rekstur sinn af kostgæfni, hófsemd, þrautseigju og heiðarleika
eins og almennt tíðkist í daglegu lífi fólks.