Áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli á hlutabréfamarkaði gætu orðið veruleg ef gosið dregst á langinn.
Ragnar Þórisson hjá vogunarsjóðnum Boreas Capital segir að strax á miðvikudagsmorguninn 14. apríl hafi sjóðurinn tekið skortstöðu í skandinavískum flugfélögum, og margir hafi fylgt í kjölfarið.
Þau viðskipti hafi strax skilað ágætri ávöxtun á nokkrum dögum, samfara gengisfalli hlutabréfa skráðra flugfélaga.
Strax eftir að aska úr Eyjafjallajökli hóf að dreifa sér yfir Evrópu lögðust flugsamgöngur niður í mörgum löndum, sérstaklega í norðanverðri Evrópu. Eitthvað er tekið að rofa til í þeim efnum, þó áætlanir einhverra flugfélaga séu enn í talsverðu uppnámi.
Sjá nánar um þetta mál í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag - og um áhrif og afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli í aðalblaði Morgunblaðsins.