Samband íslenskra sparisjóða segir, að með yfirtöku ríkisins á rekstri Byrs og Sparisjóðnum í Keflavík í gær ljúki þeirri óvissu, sem hafi ríkt um einstaka sparisjóði og sparisjóðanetið alveg frá bankahruninu í október 2008.
Stjórnir Byrs og Spkef ákváðu að skila starfsleyfi sínu í gær og óskuðu eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki yfir stjórn sjóðanna. FME hefur þegar skipað bráðabrigðastjórn sem hefur tekið yfir stjórn Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík. Aðgerðin er sambærileg við það þegar gömlu viðskiptabankarnir þrír voru teknir yfir af ríkinu í október 2008.
Samband íslenskra sparisjóða segir, að aðrir sparisjóðir hafi þegar náð samkomulagi um sín mál og stefni að því að ljúka öllum formsatriðum vegna þess á næstu vikum. Starfsemi þeirra sé tryggð og viðskiptavinir geti verið ánægðir með sinn sparisjóð hér eftir sem hingað til.
„Með þessum atburðum lýkur þeirri óvissu sem hefur ríkt um einstaka sparisjóði og sparisjóðanetið alveg frá bankahruninu í október 2008. Nú er ljóst að sparisjóðir munu áfram verða lykilaðilar í að tryggja aðgengi allra landsmanna að góðri fjármálaþjónustu með hagsmuni síns samfélags og sinna viðskiptavina að leiðarljósi," segir í tilkynningu frá sambandinu.