Stjórnir Byrs - sparisjóðs og Sparisjóðsins í Keflavík hafa farið fram á að Fjármálaeftirlitið taki yfir starfsemi sparisjóðanna í kjölfar þess að samningaviðræðum við kröfuhafa þeirra lauk án árangurs.
Í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda sparisjóðanna kemur fram að innlán Byrs - sparisjóðs og eignir hafa verið fluttar til nýs viðskiptabanka, Byrs hf. og innlán Sparisjóðsins í Keflavík og eignir hafa verið fluttar til nýs sparisjóðs, Spkef sparisjóðs. Bæði fjármálafyrirtækin hafa verið stofnuð og eru að fullu í eigu ríkisins.
Fjármálaeftirlitið hefur skipað bæði Byr - sparisjóði og Sparisjóðnum í Keflavík bráðabirgðastjórn. Í bráðabirgðastjórn Byrs - sparisjóðs eru: Eva Bryndís Helgadóttir, hrl., formaður, Ágúst Kristinsson, löggiltur endurskoðandi, Árni Ármann Árnason, hrl.
Í bráðabirgðastjórn Sparisjóðsins í Keflavík eru: Soffía Eydís Björgvinsdóttir,hdl., formaður, Auður Ósk Þórisdóttir, löggiltur endurskoðandi, Elvar Örn Unnsteinsson, hrl.
„Þetta voru þung skref fyrir mig, sem er búinn að starfa svona lengi í sparisjóðageiranum, að gera þetta,“ sagði Angantýr Valur Jónasson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, á tólfta tímanum í gærkvöldi.
Angantýr segir engan annan möguleika hafa verið í stöðunni. „Það var orðið þrautreynt. Við vorum komin að endalokum. Það voru ákveðnir erlendir kröfuhafar sem ekki vildu taka þessari endurskipulagningu, því sem var í boði, og þá varð ekki lengra komist.
Ég er ósáttur við þá að því leytinu að ég tel að það hefði verið betra fyrir þá að taka tilboðinu en að fara þessa leið.“
Í fréttatilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu segir, að fjármálaráðuneytið hafi fylgst með samningaviðræðum þessara tveggja sparisjóða við kröfuhafa sína þar sem eiginfjárframlag að hálfu ríkisins samkvæmt neyðarlögunum hafi verið hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu sjóðanna. Þessum viðræðum sé lokið með þeirri niðurstöðu að hluti kröfuhafa hafi nú hafnað fyrirliggjandi tillögum um fjárhagslega endurskipulagningu og því sé ekki fyrir hendi fullnægjandi samþykki til að þær tillögur nái fram að ganga.
Í samræmi við verklag sem áður hefur verið viðhaft hefur Fjármálaeftirlitið flutt innlán og eignir beggja sparisjóðanna til nýrra fjármálafyrirtækja sem stofnuð hafa verið og eru að fullu í eigu ríkisins. Nýju fjármálafyrirtækin yfirtaka öll innlán í Sparisjóðnum í Keflavík og Byr sparisjóði og eignir til að mæta þeim skuldbindingum.
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið áréttar, að innlán séu sem áður tryggð og allir viðskiptavinir muni hafa fullan aðgang að fjármálaþjónustu. Starfsemi hinna nýju fjármálastofnana og útibúa þeirra verði með hefðbundnum hætti og þjónusta óbreytt. Aðgengi að hraðbönkum og netbönkum, notkun greiðslukorta og greiðslumiðlun verði með reglubundnum hætti.