Yfirheyrslur hófust í dag á bandaríska þinginu yfir stjórnendum fjárfestingabankans Golman Sachs, sem sakaðir eru um ýmis svik og gjörðir sem stuðuðu að falli húsnæðismarkaðarins þar í landi, sem olli fjármálakreppu um allan heim.
„Þið höfðuð minni yfirsýn en gjafari í Las Vegas,“ sagði öldungardeildarþingmaðurinn Claire McCaskill við yfirmenn bankans. „Það leikur enginn vafi á að gjörðir þeirra voru ósiðlegar,“ bætti John McCain við.
Neita að hafa tekið stöðu gegn viðskiptavinum sínum
Stjórnendur bankans halda hins vegar fram sakleysi sínu, og segja að þótt þeir hafi veðjað á fall húsnæðismarkaðarins hafi þeir ekki stuðlaði að því að markaðurinn félli, né hagnast gríðarlega á fallinu. Þá neita þeir því að hafa tekið stöðu gegn viðskiptavinum sínum og fjármálafurðum sem bankinn tók sjálfur þátt í að hanna og selja, en tölvupóstar sem birtir voru fyrr í vikunni eru sagðir sýna að svo hafi verið.
Framkvæmdastjóri Golman Sachs, Lloyd Blankfein, var fystur til að koma til yfirheyrslu í dag. Sagði hann bankann þrífast á trausti viðskiptavina sinna og myndi því aldrei taka stöðu gegn þeim. Í kjölfar Blankfein verða sex fyrrum og núverandi stjórnendur bankans yfirheyrðir.
Segir bankann hafa blekkt þjóðina
Öldungardeildarþingmaðurinn Carl Levin, sem birti áðurnefnda pósta, segir hins vegar póstana sýna að bankinn hafi víst grætt verulega á því að taka stöðu gegn viðskiptavinum sínum og veðja á fall húsnæðismarkaðarins. „Mesti skaðinn sem bankinn hefur valdið snýr ekki að viðskiptavinum hans, sem var illa þjónað af fjárfestingabanka sínum. Skaðinn er okkar allra,“ sagði Levin og sakaði stjórnendur bankans um að hafa blekkt þjóðina.
Í dag kemur einnig fyrir þingið Fabrice Tourre, starfsmaður Golman í London sem ákærður hefur verið fyrir fjársvik. Tourre er m.a. sakaður um að hafa haldið lykilstaðreyndum leyndum við sölu á fjármálaafurðum sem byggðar voru á hinum svokölluðu undirmálslánum. Í yfirlýsingu sem birt var áður en yfirheyrslurnar hófust, neitar Tourre staðfastlega ásökununum og segist muni halda fram sakleysi sínu við réttarhöldin.