Roubini segir Grikkland aðeins toppinn á ísjakanum

Nouriel Roubini hefur verið kallaður Doktor Dómsdagur.
Nouriel Roubini hefur verið kallaður Doktor Dómsdagur.

Bandaríski háskólaprófessorinn Nouriel Roubini, sem spáði fyrir um alþjóðlegu fjármálakreppuna ári áður en hún hófst, segir nú að gríðarmiklar skuldir Bandaríkjanna, Japans og Grikklands muni leiða til vaxandi verðbólgu eða greiðsluþrots ríkja. Hann segir að vandamálin í Grikklandi séu aðeins toppurinn á ísjakanum.

„Skuldabréfagammarnir eru að yfirgefa Grikkland, Spán, Portúgal, Bretland og Ísland," sagði Roubini á ráðstefnu um fjármálamarkaði í Miken stofnuninni í Beverly Hills í Kalíforníu í gær. „En því miður eru þeir ekki að yfirgefa Bandaríkin."

Alþjóðleg matsfyrirtæki hafa lækkað lánshæfiseinkunnir skuldugra ríkja að undanförnu. Í vikunni hefur Standard & Poor's lækkað lánshæfiseinkunnir Grikklands, Spánar og Portúgals. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið eru að undirbúa víðtækar björgunarðagerðir vegna  Grikklands.

Skuldavandi Grikklands hefur valdið miklu umróti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum síðustu daga. Fréttastofa Bloomberg áætlar, að 1 billjón dala hafi tapast á hlutabréfamarkaði á þriðjudag þegar hlutabréfavísitölur um allan heim lækkuðu.

„Það sem ég óttast er uppsöfnun opinberra skulda," sagði Roubini, sem er prófessor við New York háskóla og fyrrum ráðgjafi bandaríska fjármálaráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sagði hann að ef ekki yrði brugðist við þessu vandamáli muni þjóðir annað hvort ekki geta staðið við skuldbindingar sínar eða verðbólga aukist vegna þess að ríki neyðist til að „prenta peninga". 

„Þótt markaðirnir hafi nú áhyggjur af Grikklandi þá er það land aðeins toppurinn á ísjakanum eða kanarífuglinn í kolanáminni en undirliggjandi eru mun víðtækari vandamál," sagði Roubini.

Hann sagði í samtali við Bloomberg, að Grikkir kynnu á endanum að neyðast til að yfirgefa evrusamstarfið. Það myndi leiða til gengisfalls evrunnar. Þá muni vandamál bandaríska ríkissjóðsins á endanum komast í sviðsljósið. 

„Hættan á að eitthvað alvarlegt gerist í Bandaríokjunum á næstu tveimur til þremur árum er veruleg," sagði Roubini vegna þess að enginn í bandaríska stjórnkerfinu myndi grípa til aðgerða nema skuldabréfamarkaðurinn neyddi þá til þess.   

Hann sagði, að Bandaríkin þyrftu væntanlega bæði að hækka skatta og draga úr ríkisútgjöldum en Evrópuríki þyrftu einkum að draga úr útgjöldum.

Frétt Bloomberg

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK