Forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, sagði í sjónvarpsávarpi til grísku þjóðarinnar í morgun að stærð björgunarpakka Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til Grikklands ætti sér ekkert fordæmi í heiminum en greindi ekki frá því hve háa fjárhæð væri um að ræða.
Að sögn Papandreou kemur samkomulagið við ESB og AGS í veg fyrir gjaldþrot ríkisins og að landið þyrfti að færa miklar fórnir vegna aðstoðarinnar.
„Í dag samþykktum við samkomulagið sem náðist á laugardag með Evrópusambandi og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum," sagði Papandreou í sjónvarpsávarpinu. Með ákvörðuninni í dag þurfa borgarar landsins að færa miklar fórnir, sagði hann. En þar vísar hann til mikillar reiði meðal almennra borgara í Grikklandi vegna aðhaldsaðgerða hjá hinu opinbera.
George Papaconstantinou, fjármálaráðherra Grikklands, sagði að opinberar skuldir Grikklands muni ná 140% af vergri landsframleiðslu árið 2013 en fari lækkandi eftir það. Grikkir hafa fallist á að skera niður ríkisútgjöld um 30 milljarða evra á næstu þremur árum og er markmiðið að fjárlagahalli, sem var 13,6% af vergri landsframleiðslu á síðasta ári, verði kominn niður í 3% árið 2014.