Glitnir sótti sér 10-15 milljarða með útboði á víkjandi skuldabréfum í mars 2008. Kjörin á bréfunum voru vægast sagt góð. Fjárfestum voru boðin breytileg skuldabréf með 8% verðtryggðum vöxtum. Þeir sem keyptu skuldabréfin á þessum tíma voru því í raun betur settir en hluthafar bankans, að því gefnu að starfsemi bankans myndi halda áfram út líftíma skuldabréfsins. Glitnir gat notað skuldabréfaflokkinn sem um ræðir til að bæta eiginfjárstöðu sína.
Þegar Glitnir seldi skuldabréfin hafði bankinn nýlokið við misheppnaða kynningu í Bandaríkjunum. Bankinn hafði ætlað að sækja sér fé vestur um haf, en starfsmenn bankans sem ferðuðust og hittu fjárfesta komu tómhentir heim. Því var gripið til þess ráðs að selja lífeyrissjóðum breytileg, víkjandi skuldabréf á fáheyrðum kjörum. Heimildir Morgunblaðsins herma að skuldabréfaflokkurinn sem um ræðir hafi verið vinsæll ekki eingöngu meðal lífeyrissjóða, heldur líka smærri fjárfesta.
Fram kemur í ársskýrslu Almenna lífeyrissjóðsins 2008 að Bjarni hafi hætt í stjórninni 28. október 2008, ríflega þremur vikum eftir að íslenska bankakerfið hrundi.