Bandarískt fjárfestingarfélag segir, að hætta sé á nýju samdráttarskeiði í Bandaríkjunum vegna olíumengunarinnar á Mexíkóflóa en kostnaður vegna hreinsunarstarfs og tjón af völdum mengunar gæti numið hundruðum milljarða dala og áhrifin gætu orðið langvinn.
Í greiningarskýrslu frá Cumberland Advisors segir David Kotok, aðalhagfræðingur, að olíumengunin frá sokkna borpallinum í Mexíkóflóa geti haft mjög alvarleg áhrif á efnahag Bandaríkjanna.
Útlit er fyrir að það taki nokkra mánuði að stöðva olíuleka úr lindinni en þaðan renna nú nærri milljón lítrar á sólarhring í sjóinn. Segir Kotok að hreinsunarstarf gæti tekið áratug.
„Flóinn er skaðaður í mannsaldur. Olíuflekkurinn fer meðfram vesturströnd Flórída, fer inn í golfstrauminn og berst að austurströnd Bandaríkjanna og lengra," skrifar Kotok. „Fjárhagslegt tjón nemur nú mörg hundruð milljörðum dala."
Hann segir, að kostnaður bandaríska ríkisins verði gríðarlegur og útlit sé fyrir að stýrivextir verði ekki hækkaðir á þessu ári og jafnvel ekki því næsta heldur. Neikvæð áhrif af menguninni muni aukast á næstunni.
„Nýtt samdráttarskeið er orðið líklegra vegna þessa harmleiks," segir Kotok að lokum.