Veitingahúsaveldi bresk-íranska kaupsýslumannsins Robert Tchenguiz er að hverfa en búið er að auglýsa veitingastaði hans til sölu. Er það Kaupþing og þýski bankinn Commerzbank sem buðu keðjuna til sölu á 70 milljónir punda, 13,7 milljarða króna, í síðustu viku. Þetta kemur fram á vef breska dagblaðsins Telegraph.
Félög tengd Tchenguiz njóta þess vafasama heiðurs að vera langstærsti skuldari íslensku bankanna en þau skulduðu um 2,2 milljarða evra þegar íslensku bankarnir fóru í þrot haustið 2008. Þrátt fyrir það að skulda langmest allra þá var Kaupþing eini lánadrottinn þeirra á Íslandi.
Á þeim átta mánuðum, sem liðu frá áramótunum 2007 og 2008 og til bankahrunsins jukust skuldir félaga tengdra Robert Tchenguiz um tæpan milljarð evra, eða um 80,9 prósent. Í ársbyrjun 2008 námu skuldir hans við íslensku bankana 1,2 milljörðum evra, en við hrun voru skuldirnar komnar í 2,18 milljarða, sem samsvarar um 370 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.
Skilanefnd Kaupþings eignaðist síðasta sumar meirihlutann í Bay Restaurant Group sem aftur á veitingahúsakeðjurnar La Tasca og Slug and Lettuce, en þær voru áður í eigu Tchenguiz. Yfirtaka á þessum eignum var unnin í samstarfi við þýska bankann Commerzbank.
Segir í frétt Telegraph að Kaupþing hafi fengið ráðgjafafyrirtækið McQueen til þess að annast söluna á Bay Restaurant Group. Líklegasti kaupandinn er, samkvæmt Telegraph, Tragus, félag í eigu Blackstone sem á og rekur Café Rouge og Bella Pasta staðina. Í apríl 2007 tapaði Tragus í baráttunni um að kaupa eignir La Tasca fyrir félagi í eigu Tchenguiz. Hann greiddi 123 milljónir punda fyrir La Tasca.