Veldi Tchenguiz að hverfa

Robert Tchenguiz
Robert Tchenguiz Reuters

Veitingahúsaveldi bresk-íranska kaupsýslumannsins Robert Tchenguiz er að hverfa en búið er að auglýsa veitingastaði hans til sölu. Er það Kaupþing og þýski bankinn Commerzbank sem buðu keðjuna til sölu á 70 milljónir punda, 13,7 milljarða króna, í síðustu viku. Þetta kemur fram á vef breska dagblaðsins Telegraph.

Félög tengd Tchenguiz njóta þess vafasama heiðurs að vera langstærsti skuldari íslensku bankanna en þau skulduðu um 2,2 milljarða evra þegar íslensku bankarnir fóru í þrot haustið 2008. Þrátt fyrir það að skulda langmest allra þá var Kaupþing eini lánadrottinn þeirra á Íslandi.

Á þeim átta mánuðum, sem liðu frá áramótunum 2007 og 2008 og til bankahrunsins jukust skuldir félaga tengdra Robert Tchenguiz um tæpan milljarð evra, eða um 80,9 prósent. Í ársbyrjun 2008 námu skuldir hans við íslensku bankana 1,2 milljörðum evra, en við hrun voru skuldirnar komnar í 2,18 milljarða, sem samsvarar um 370 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.

Skilanefnd Kaupþings eignaðist síðasta sumar meirihlutann í Bay Restaurant Group sem aftur á veitingahúsakeðjurnar La Tasca og Slug and Lettuce, en þær voru áður í eigu Tchenguiz. Yfirtaka á þessum eignum var unnin í samstarfi við þýska bankann Commerzbank.

Segir í frétt Telegraph að Kaupþing hafi fengið ráðgjafafyrirtækið McQueen til þess að annast söluna á Bay Restaurant Group. Líklegasti kaupandinn er, samkvæmt Telegraph, Tragus, félag í eigu Blackstone sem á og rekur Café Rouge og Bella Pasta staðina. Í apríl 2007 tapaði Tragus í baráttunni um að kaupa eignir La Tasca fyrir félagi í eigu Tchenguiz. Hann greiddi 123 milljónir punda fyrir La Tasca.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK