Borgarsjóður var rekinn með 3,2 milljarða króna hagnaði á síðasta ári, það er A-hluti. Hins vegar nam tap samstæðureiknings Reykjavíkurborgar (A og B hluta) 1.650 þúsundum króna. Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 var lagður fram á borgarstjórnarfundi í dag.
„Þetta eru mikil og góð tíðindi fyrir Reykvíkinga,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri. „Ársreikningurinn staðfestir mikinn árangur og sýnir í hnotskurn þá ábyrgu fjármálastjórn sem Reykjavíkurborg hefur ástundað á síðasta ári,“ segir Hanna Birna, í fréttatilkynningu.
„Borgarsjóður er rekinn hallalaus og hagræðingaraðgerðir hafa skilað árangri. Við höfum með samstilltu átaki náð nægjanlegum sparnaði til að geta haldið uppi góðri grunnþjónustu án þess að þurfa að auka álögur á almenning á þessum erfiðu tímum,“ segir Hanna Birna ennfremur í fréttatilkynningunni, en hjá Reykjavíkurborg voru hvorki skattar né gjaldskrár fyrir grunnþjónustu hækkaðar á árinu.
„Rekstrarniðurstaða borgarsjóðs, A-hluta, var jákvæð um 3,2 milljarða króna árið 2009 (var 2,3 milljarðar árið 2008). Meginástæður þessarar hagstæðu niðurstöðu eru mikill árangur fagsviða borgarinnar við að ná markmiðum um sparnað og hagræðingu í rekstri, hærri útsvarstekjur en áætlun gerði ráð fyrir og breyting lífeyrisskuldbindinga sem lækkaði útgjöld. Þessi niðurstaða náðist þrátt fyrir að gengisþróun hafi verið óhagstæðari og verðlag hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaðan lýsir í hnotskurn miklum sveigjanleika og góðu rekstrarhæfi.
Veruleg umskipti til hins betra urðu í rekstri samstæðunnar, A og B-hluta, miðað við árið á undan. Rekstraralli var á samstæðunni um 1,7 milljarðar króna (en var 71 milljarður árið 2008). Þennan halla má einkum rekja til þess að gengis- og verðlagsþróun var óhagstæðari en það sem opinberar spár gerðu ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði var hins vegar jákvæð um rúmlega 9,7 milljarða sem er betri niðurstaða en árið 2008 og betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Það sýnir að samstæðan öll hefur brugðist við breyttum rekstraraðstæðum af miklu afli," segir ennfremur í fréttatilkynningu.