Það þarf ekki að koma mönnum á óvart að neyðarlán aðildarríkja evrusvæðisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins handa grískum stjórnvöldum hafi ekki dugað til þess að lægja öldurnar á fjármálamörkuðum. Sjálft neyðarlánið leysir ekki skuldavanda gríska ríkisins. Það er nú um 130% af landsframleiðslu en vegna lánsins mun það fara upp í 150% á næstu árum.
Djúpstæðar og vaxandi efasemdir um greiðslugetu gríska ríkisins leiddu til þess að því bjóðast nú aðeins afarkjör á fjármálamörkuðum. Neyðarlánið, sem er upp á annað hundrað milljarða evra, veitir hinsvegar gríska ríkinu svigrúm til þess að taka til í sínum efnahagslega ranni þar sem ekki þarf að endurfjármagna gjalddaga næstu ára. Hinsvegar eru uppi miklar efasemdir um hvort grískum stjórnvöldum takist að grípa til jafnvíðtækra aðhaldsaðgerða og þörf er á svo að hægt verði að endurreisa samkeppnishæfni landsins, skjóta styrkari stoðum undir efnahaginn og gera hagkerfinu kleift að standa undir hinni miklu skuldabyrði.
Ekki er raunhæft fyrir grísk stjórnvöld að kasta frá sér evrunni. Gengisfall í kjölfar upptöku nýrrar myntar myndi margfalda það sem þá myndi flokkast sem erlendar skuldir og það væri hægara sagt en gert að endurgera alla samninga í hagkerfinu í nýrri mynt. Að þessu gefnu fela skilmálar neyðarlánsins það í sér að grísk stjórnvöld þurfa að skera nánast jafnmikið niður í ríkisútgjöldum á endanum og þau hefðu þurft að gera sökum þess að fjármálamarkaðir eru þeim lokaðir vegna hins mikla fjárlagahalla. En eins og bent er á í umfjöllun The Wall Street Journal þá byggjast skilmálar neyðarlánsins á þeirri forsendu að grískum stjórnvöldum takist á nokkrum árum að hrinda í framkvæmd víðtækum umbótum sem þurfa meðal annars að leiða til þess að skattheimta stjórnvalda taki straumhvörfum og að framleiðni í hagkerfinu jafnist á við það sem á sér í stað í þýska hagkerfinu.
Þannig að það er ekki ofsögum sagt að gríska hagkerfið sé á milli steins og sleggju. Leiða má líkur að því að óróleikinn á fjármálamörkuðum vegna Grikklands verði viðvarandi á meðan spurningunni um hvort og hvernig verður tekist á við ósjálfbæra skuldastöðu ríkisins er ósvarað. Á meðan svo er má búast við að þrýstingur á fjármálamarkaði á önnur skuldsett evruríki sem búa við mikinn hallarekstur og slæmar hagvaxtahorfur haldi áfram að magnast.
Þetta viðsjárverða ástand hefur meðal annars leitt til þess að gengi evrunnar hefur lækkað að undanförnu og hefur það ekki verið lægra gagnvart Bandaríkjadal í meira en ár. Þó svo að mörg útflutningsfyrirtæki á evrusvæðinu fagni þeirri þróun verður að hafa í huga að slík veiking hefur óveruleg áhrif til styrkingar í þeim illa stöddu evruríkjum sem reiða sig mest á útflutning til annarra evrulanda. Veiking evrunnar er ekki síst rakin til þeirrar ákvörðunar Evrópska seðlabankans við upphaf vikunnar að fella úr gildi allar takmarkanir um veðhæfi grískra ríkisskuldabréfa sem eru tæk til endurhverfra verðbréfaviðskipta við bankann.