Mistök verðbréfamiðlara eru jafnvel talin hafa valdið hruni á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag. Á stuttum tíma í dag féll Dow Jones vísitalan um tæp eitt þúsund stig. Bæði Fox News og CNBC birtu í kvöld fréttir af því að mistök tengd viðskiptum með Proctor & Gamble hafi sett hrinuna af stað. Allir helstu fjármálamarkaðir heims eru afar viðkvæmir þessa dagana vegna ástandsins í Grikklandi.
Rólegt var í kauphöllinni í New York þegar hún opnaði í dag en skyndilega féllu bréf P&G um 20% án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Er jafnvel talið að miðlari hafi sett milljarða virði af bréfum í sölu í stað milljóna. Er þegar byrjað að leita að sökudólginum og segja einhverir bandarískir fjölmiðlarar að miðlarinn starfi hjá Citigroup.
Þegar viðskiptum lauk í kvöld nam lækkun Dow Jones 3,20% eða um 347,8 stig og er lokagildi vísitölunnar 10.520,32 stig. Nasdaq lækkaði um 3,29% og Standard & Poor's 500 um 3,24%.