Evruríkin munu senda skýr skilaboð til þeirra sem stunda spákaupmennsku með því að stofna sameiginlegan sjóð sem ætlað er að styrkja hagkerfi í vanda, segir Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Leiðtogar evru-ríkjanna reyna að nú að finna lausn á þeim vanda sem blasir við mörgum ríkjum á svæðinu. Hefur evran átt undir högg að sækja og hefur ekki verið jafn lág gagnvart öðrum gjaldmiðlum lengi.
Eru leiðtogarnir sextán sammála um að reyna að draga hratt úr skuldum ríkja innan sambandsins svo hægt verði að verjast árásum spákaupmanna í kjölfar kreppunnar í Grikklandi.
Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, varaði við því í kvöld að um kerfisbundna kreppu væri að ræða á evrusvæðinu og henni yrði að svara á skilvirkan hátt. Segir hann engan vafa vera um að erfiðleikarnir nú væru þeir mestu frá því Myntbandalag Evrópu var stofnað.